Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Í framhaldi af því að hæstv. ráðherra sagði að stefna íslenskra stjórnvalda væri algerlega skýr, að leyfa ekki staðsetningu kjarnavopna á Íslandi, þá langar mig að spyrja: Er það virkilega svo? Vegna þess að þessi lending sem ráðherra kallaði svo varðandi friðlýsinguna í þjóðaröryggisstefnu setur þann fyrirvara að taka skuli tillit til alþjóðlegra skuldbindinga og þar væntanlega kemur samningurinn um NATO og tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin til skoðunar varðandi staðsetningu mögulegra kjarnavopna á íslenskri grundu. Mér finnst þetta nefnilega alls ekkert skýrt. Ef þetta væri algerlega skýrt þá hefði væntanlega ekki þurft neina lendingu. Ef það er algjörlega skýr stefna stjórnvalda að leyfa ekki staðsetningu kjarnavopna á Íslandi, mætti þá ekki breyta 10. gr. þjóðaröryggisstefnunnar um að það stæði? Við getum sleppt því að tala sérstaklega um landhelgina af því að þar á hafréttarsáttmálinn við og gegnir kannski örlítið öðru máli. En á íslenskri grundu — er eitthvað því til fyrirstöðu að taka þennan fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar út (Forseti hringir.) varðandi þann hluta?