Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er allt rétt sem hv. þingmaður sagði um NATO. Þetta er líka grunnurinn að stofnun Evrópusambandsins. Stofnun Evrópusambandsins er m.a. rakin til þess að Bandaríkjamenn sögðu að Evrópa þyrfti svolítið að taka málin í sínar hendur til þess að varðveita frið, frelsi, lýðræði og mannréttindi. Það er m.a. gert með efnahagslegri samvinnu, af því að hluti af efnahagslegum lífsgæðum eykur velsæld íbúa og það eykur öryggi, frelsi og frið. Ég hef sagt að NATO og Evrópusambandið séu tvær hliðar á sama peningnum og nú hafa bæði Finnar og Svíar valið það að vera báðum megin á þessum peningi. Ég virði það og ég skil það líka mjög vel. Í þeirri þjóðaröryggisstefnu sem við ræðum um hér eru loftslagsmálin dregin inn réttilega, sem ég styð. Hluti af því að koma upp þjóðaröryggisstefnu er að taka tillit til loftslagsmála.

Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, alfarið andstæðingur Evrópusambandsins í gegnum tíðina, skrifaði nýlega grein í norska fjölmiðla þar sem hann dró fram að við getum ekki lengur komist hjá því að ræða þessi mál því að stefna Evrópusambandsins, m.a. á sviði loftslagsmála, hefur verulega þýðingu fyrir Norðmenn, öryggi Norðmanna og fyrir öryggi allrar heimsálfunnar. Ég segi: NATO hefur sinnt okkur svo vel að þegar við urðum blessunarlega stofnaðilar að NATO 1949 þá fengum við sæti við borðið. Og það er það sem ég segi, ég vil gjarnan að við Íslendingar höfum sæti við borðið þegar kemur að Evrópusambandinu af því að ég trúi því að með slíku samstarfi — af því þetta er ekki bara efnahagslegt samstarf, þetta er pólitískt samstarf sem að mínu viti stuðlar að friði, auknu öryggi og auknu samstarfi á milli þjóða. Það er mín trú og ég virði það við hv. þingmann að hann telur bara að NATO geti leyst málin. Ég held að báðir aðilar muni auka efnahagslegt, félagslegt og pólitískt öryggi okkar Íslendinga.