Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:15]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er ágætt að það komi fram að það er ekkert sérstakt í öryggis- og varnarmálum þegar kemur að Evrópusambandinu sem er umfram það sem við höfum þegar í samstarfi okkar í Atlantshafsbandalaginu. Röksemdir hv. þingmanns fyrir því að ganga í Evrópusambandið kunna að vera margs konar, eins og hv. þingmaður hefur komið inn á. Ég er þeirrar skoðunar að öryggis- og varnarsamstarf er bara ekki einn sá hluti. Til að draga það sérstaklega fram þá er það þannig að samstarf NATO og Evrópusambandsins er þegar mjög mikið, því verður ekki breytt, hvort sem við horfum til stefnu Evrópusambandsins í þessum málum eða NATO sjálfs. Vissulega er það svo að þegar kemur að öðrum þáttum sem hv. þingmaður kom inn á, loftslagsmálum sem dæmi, þá eigum við í mjög miklu alþjóðlegu samstarfi um þau mál. Það er mikilvægt. Aftur, engin röksemd hefur komið hér fram í ræðu hv. þingmanns um að Ísland þurfi að ganga í Evrópusambandið.