Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni, blessunarlega, af því að mér finnst þessi nálgun vera 20. aldar nálgun þegar kemur að utanríkismálum. Með fullri virðingu. Að menn sjái ekki möguleikana og tækifærin sem felast í auknu samstarfi ríkja. Mér finnst bara best að benda á: Hvar töldu Úkraína, Moldóva, Georgía og Eystrasaltsríkin sínu öryggi best borgið? Hvar var það? Fyrsta skrefið var að leita inn í Evrópusambandið og NATO, ekki bara NATO heldur Evrópusambandið líka, hvort sem það er Úkraína, Moldóva, Georgía og þessi lönd sem ég fjallaði um, af því að þetta er samofið. Ég er þeirrar skoðunar að efnahagslegu, félagslegu og varnarlegu öryggi Íslands sé betur borgið í því að vera aðili að báðum samböndum. Fyrst við erum að tala um loftslagsmálin þá kemur það einmitt fram hjá Bondevik og fleirum að markmið Evrópusambandsins er núna orðið hærra, öflugra og markvissara en Íslendingar hafa sjálfir sett sér. Þeir hafa miðað við losun 2040 upp á 57%. Við Íslendingar eru enn þá bara með 55%, (Forseti hringir.) sem var lágmarkið sem Evrópusambandið setti. Þannig að þetta getur líka verið (Forseti hringir.) drifkraftur þess að ýta við okkar samfélagi hér heima á Íslandi.