Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var alveg ágæt. Hv. þingmaður hefur talað fyrir því — og ekki bara úr þessum ræðustóli heldur í skrifum, ég held ég hafi rekist á það — að hér yrði föst viðvera varnarliðs. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann nánar út í það með hvaða hætti hún sæi það fyrir sér. Nú var síðast föst viðvera landhers á Íslandi árið 1960 og ég sé persónulega ekki þörfina fyrir slíkan varnarviðbúnað. Ég sé ekki alveg ógnina. Ef Rússar ætluðu sér t.d. að ásælast Ísland þá myndu þeir væntanlega skjóta stýriflaug úr kafbáti sirka 3.000 km í burtu. Þess vegna held ég að það sé afar mikilvægt að við tökum umræðuna um loftvarnasveitir, þ.e.a.s. þessar skuldbindingar sem Bandaríkjamenn hafa undirgengist í varnarsamningnum við okkur um að hingað komi loftvarnasveitir steðji hernaðarleg hætta að landinu. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji það ekki nægilegt. Í því sambandi er spurningin þessi: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér þennan viðbúnað? Er hv. þingmaður að tala um landher? Er hann að tala um fasta viðveru sjóhers? Ég minni á að við höfum virkt kafbátaeftirlit í kringum landið á vegum Bandaríkjahers og er því ágætlega sinnt og m.a. langt norður í haf. Sá þáttur held ég að sé í góðu lagi hjá okkur. En það væri gott að fá frekari skýringar á þessu frá hv. þingmanni.