Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hv. þingmaður nefndi sérfræðinga á þessu sviði, m.a. við Háskóla Íslands, en ég hef heyrt önnur sjónarmið. Ég nefni t.d. ágætan sérfræðing á þessu sviði, Albert Jónsson, sem hefur m.a. skrifað um þessa hluti og er á þeirri skoðun að ekki sé þörf hér fyrir fasta viðveru þannig að sérfræðinga greinir á um þennan þátt. En það er sjálfsagt og eðlilegt, og ég tek alveg undir það með hv. þingmanni, að fram fari mat á þessu. Ég átti fund í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna ekki fyrir svo löngu með sérfræðingi á norðurslóðum og spurði hann sérstaklega um öryggi sæstrengja við Íslandsstrendur. Hann sagði þá að það væri stöðugt mat í gangi af hálfu Bandaríkjanna hvað það varðar. Það sama ætti náttúrlega við þegar kemur að almenna varnarviðbúnaðinum. (Forseti hringir.) En ég tek alveg undir það að það er sjálfsagt að taka þessa umræðu. Ég hef viðrað mína skoðun hvað þetta varðar en sérfræðinga greinir líka á þannig að það er spurning hvernig eðlilegt er að nálgast þetta. Umræðan skiptir náttúrlega verulegu máli og að kalla til þá sem þekkja best til.