Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:26]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún kom inn á netöryggismál og minntist m.a. á NATO og varnarsamninginn. Það er mikilvægt að koma þessu inn í varnarsamninginn og það er vitað að þetta er líka hluti af samstarfinu við NATO, ég þekki ekki alveg nógu vel hversu mikið. Er það ekki rétt skilið að vernd mikilvægra innviða og órofa virkni og styrking áfallaþols samfélagsins — þessar tengingar og fjarskiptatengingar Íslands við útlönd — fellur undir varnarmál, undir NATO og varnarsamninginn? Þessar tengingar eru ekki hluti af almannaöryggi eða virkri utanríkisstefnu. Ég get ekki séð annað þegar ég les d-liðinn, f-liðinn og g-liðinn í þessari breytingartillögu. Ég er ekkert viss um að þetta falli undir varnarmál, ég verð bara að segja alveg eins og er, en ég vil fá að vita það. Ef við kæmum t.d. upp virkri innlendri greiðslumiðlun sem myndi stórlega tryggja öryggi okkar, þ.e.a.s. ef Ísland yrði ekki tengt við umheiminn myndum við geta haldið okkar innra hagkerfi — það getur vel verið að það sé almannaöryggi sem við getum átt við sjálf, þessar innri tengingar. Það breytir því ekki að öryggi ytri tenginga Íslands er í umsjá NATO, Atlantshafsbandalagsins. Veit hv. þingmaður til þess að þetta sé nægilega tryggt innan NATO? Ég veit að það er ekki í varnarsamningnum en er það ekki þessara aðila að hafa eftirlit með því að varnir séu til staðar og að hægt sé að koma í veg fyrir að ráðist verði á þessa mikilvægu innviði?

Annað sem mig langar að minnast á — ég kannski nota seinna andsvar mitt til þess, ég get ekki sleppt hv. þingmanni án þess að minnast á það — er að innganga í Evrópusambandið er ekki öryggismál heldur efnahagsmál. Við erum á innri markaðnum og inngangan í ESB yrði á forsendum Íslands, efnahagsstefnu Íslands, en ekki á grundvelli öryggishagsmuna, varnarhagsmuna. Við erum með þá tryggða í NATO og í varnarsamningnum. Ég bendi á að Finnland og Svíþjóð, aðildarríki ESB, gengu í Atlantshafsbandalagið út af innrásinni í Úkraínu.