Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða þjóðaröryggisstefnu sem tekur breiðar á málum eins og hæstv. forsætisráðherra hefur m.a. sagt. Sameiginleg stefna Evrópusambandsins snýst einmitt um öryggismál í hinu stóra samhengi. Heildrænni nálgun á öryggis- og varnarmál í sem víðustum skilningi, það er nákvæmlega það sem ESB hefur fram að færa umfram NATO. Áhættuþættirnir gagnvart Íslandi eru því ekki ósvipaðir þeim sem settir væru fram í öryggisstefnu og eru settir fram í öryggisstefnu ESB á sviði efnahags, innviða, umhverfis o.s.frv. Slík samvinna tekur því bæði til viðbúnaðar og viðbragðsáætlana á Íslandi sem og þátttöku í alþjóðlegum aðgerðum. Öryggis- og varnarstefna ESB fellur því að mínu mati mjög vel að anda og stefnu íslenskra stjórnvalda í öryggismálum og ýtir í raun enn frekar undir hana. Við skulum hafa í huga að hefðbundin mörk milli innra og ytra öryggis verða sífellt óljósari. Það er það sem m.a. hefur komið fram hér í dag eftir því sem áskoranir á sviði öryggismála verða fleiri og fjölbreyttari. Ég held að það sé mjög erfitt að slíta þetta í sundur. ESB er vissulega með svipaðar áherslur og NATO en líka á aðeins breiðari grunni. Þess vegna skiptir aðild að bæði NATO og ESB máli, að mínu mati, fyrir öryggishagsmuni Íslands. Ekki viljum við bara tala um að við séum að koma okkur upp þjóðaröryggisstefnu á sem breiðustum grunni en mega svo alls ekki tala um þennan breiða grunn þegar kemur að ESB? Hljóð og mynd verða að fara saman hvað þetta varðar. Þetta er eindregið mín skoðun.

Ég kem kannski að því í mínu seinna andsvari, ég sé að tíminn er að renna út, að ég er á því að við þurfum að skýra og skerpa enn frekar hvað fellur undir þjóðaröryggi, öryggis- og varnarmál, þegar kemur að uppbyggingu innviða og m.a. að sæstrengjunum. Allir ferlar og öll stjórnsýsla þurfa að vera skýrari og skarpari ef eitthvað kemur upp á, (Forseti hringir.) og það er verkefni okkar í þinginu að draga það fram.