Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:31]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það væri fróðlegt að ítreka þetta varðandi netöryggið. Ég tel að það ætti að falla undir varnarsamninginn og aðild okkar að NATO. Ef sæstrengir, fjarskiptatengingar við Ísland, væru sprengdir í loft upp, þeir rofnir, þá er það árás á Ísland. Það er árás skv. 5. gr., árás á aðildarríki. Ef Bústaðabrúin væri sprengd í loft upp eða Keflavíkurstöðin þá er það árás Ísland, svo einfalt er það — alveg sama með þessar tengingar — og áhrifin yrðu gígantísk. Við þurfum að vera búin undir það að tenging Íslands við umheiminn gæti rofnað, þá þurfum við að geta tryggt að innra hagkerfi sé til staðar. Ég tel að vissulega geti þarna verið ákveðnir þættir sem lúta að almannaöryggi en það tengist ekki virkri utanríkisstefnu eða neitt svoleiðis. En það er fyrst og fremst varnarmál að verja þessa innviði, þessa hlutbundnu innviði, svo það liggi fyrir.

Varðandi öryggismál Evrópusambandsins — nú hef ég búið í Noregi, þeir eru í NATO, þeir eru á innri markaðnum. Þeir hafa lagt höfuðáherslu á að bandarískt herlið verði í Noregi með viðvarandi hætti, vissulega „rotating“ eins og það er kallað. Danir hafa líka gert það, þeir hafa líka opnað fyrir það. (Forseti hringir.) Austur-Evrópa treystir á Atlantshafsbandalagið, ekki Evrópu. Við verðum að gera það sama. (Forseti hringir.) Ég vil taka sem dæmi að í b-liðnum er talað um norræna, evrópska og alþjóðlega samvinnu, ekki vestræna.