Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi netöryggið, svo að ég svari því, vil ég bara draga fram að Viðreisn er eini flokkurinn, síðan árás Rússa á Úkraínu hófst 24. febrúar síðastliðinn, sem hefur sett fram þingsályktunartillögu sem tekur á öryggis- og varnarmálum. Viðreisn er eini flokkurinn sem hefur lagt fram slíka tillögu og einn af fjórum þáttum sem við leggjum til er að viðauki við varnarsamninginn verði sérstaklega tekinn upp í samtali við Bandaríkjamenn, þannig að það sé alveg skýrt að varnar- og öryggismál okkar séu líka tengd því að netöryggi sé í lagi, að sæstrengirnir séu í lagi, að innviðir eins og órofnar samgöngur séu í lagi. Við þurfum, í ljósi þess tíma sem við lifum á, að taka þetta samtal við Bandaríkin og hafa þetta mun skýrar. Ég segi því: Ég óttast að þessi viðkvæmni sem maður skynjar svolítið núna sé að leiða okkur í að þetta verði þunnt plagg, bara endurnýjun á gamla plagginu (Forseti hringir.) sem var fínt en ekki verið að taka nægilega mikið tillit til nútímans.