Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Hernaður Rússa í Úkraínu hefur framkallað nýja stöðu í öryggismálum Evrópu. Það kallar á aukna árvekni á fjölmörgum málefnasviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til. Innrás Pútíns hefur fært NATO sterkari tilfinningu um tilgang sinn og þjappað stjórnmálamönnum í Evrópu meira saman en nokkuð annað á síðari árum. Ég fagna þeim breytingum sem hér eru lagðar til að verði gerðar á þingsályktun um þjóðaröryggismál, sem fyrst var samþykkt árið 2016, og ég vil þakka fyrir þá vinnu sem liggur að baki.

Frú forseti. Ég hef farið tvisvar sinnum til Úkraínu eftir að stríðið hófst og hef m.a. komið til Bútsja, skammt fyrir utan höfuðborgina Kiev, þar sem grimmileg fjöldamorð á óbreyttum borgurum fóru fram. Í litlum almenningsgarði, ekki ósvipuðum Austurvelli hér fyrir utan, var grafin hola með vinnuvél. Umhverfis garðinn eru síðan hús rétt eins og húsin hér við Austurvöll, nema það voru íbúðarhús. Í þessum húsum voru fjölskyldur, mæður og feður, börn og eldra fólk. Þetta blessaða fólk hafði ekkert til saka unnið. Þetta saklausa fólk var dregið úr húsum sínum af rússneskum hermönnum út í garðinn sem það hafði ávallt notið þess að vera í. En í þetta sinn beið þeirra hryllingur í garðinum. Móðir hélt í höndina á níu ára dóttur sinni þegar henni var hent ofan í holuna og hún skotin til bana. Mæðgurnar voru báðar skotnar til bana; saklausar konur, saklausir borgarar. Holan sem hafði verið grafin deginum áður var orðin full. Hún var full af líkum saklausra borgara í Úkraínu.

Stríðið í Úkraínu er hreinn viðbjóður, frú forseti, ég hef séð það eigin augum. Rússar svífast einskis og skjóta á allt sem fyrir verður; íbúðarhús, sjúkrastofnanir, skóla, leikskóla, kirkjur, matvöruverslanir og leikvelli barna. Þetta stríð er okkur þörf ábending um mikilvægi varnarsamstarfsins við Bandaríkin og veru okkar í varnarbandalaginu NATO. Þess vegna verðum við að sjá til þess að við uppfyllum ávallt skuldbindingar okkar hvað þetta varðar. Hlutleysi veitir enga vörn. Ég tel ekki þörf á því að hér verði föst viðvera landhers, eins og sumir hafa kallað eftir, eða aukinn hernaðarviðbúnaður af þeim toga. Síðast var hér landher á vegum Bandaríkjahers árið 1960, eins og ég nefndi í andsvari, en ég sé ekki að við búum við ógn sem kalli á landher. Ef Rússar ætluðu sér að ásælast Ísland myndu þeir skjóta stýriflaugum úr kafbátum í allt að 3.000 km fjarlægð. Loftvarnasveitir eru það sem við eigum að leggja áherslu á og þar höfum við varnarsamninginn við Bandaríkin. Bandaríkin eru skuldbundin til að senda okkur loftvarnasveitir verði ráðist á landið. Þá má heldur ekki gleyma því að virkt kafbátaeftirlit er hér á landi á vegum Bandaríkjahers, eftirlit sem nær langt norður í haf og Bandaríkjamenn eru t.d. þessa stundina með flugmóðurskip við æfingar í Austur-Atlantshafi.

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að trúa því að Rússar verði farnir frá Úkraínu innan fárra mánaða. Rússneski herinn hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum. Mannfall er mikið og mórall meðal hermanna í molum. Herinn er í verulegum vandræðum og ekki sér fyrir endann á þeim. Hrakfarir rússneska hersins hafa verið slíkar að Pútín þarf nú að glíma við reiði og spennu innan hersins og valdaklíkunnar í Kreml. Hins vegar er afar mikilvægt að almenningur í Evrópu hafi þolinmæði fyrir mjög kostnaðarsömum aðgerðum gegn stjórnvöldum í Moskvu. Sú hætta er fyrir hendi að úthaldið gæti reynst minna, t.d. ef komandi vetur verður harður í Evrópu eða margir koma til með að missa vinnuna, en gas er mikið notað í iðnað í Evrópu eins og í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið.

Ef ég vík nánar efnislega að tillögunni þá vil ég aðeins koma að fjarskiptum. Nánast öll tal- og gagnafjarskipti við útlönd fara um ljósleiðaratengingar á landi og síðan um þrjá sæstrengi sem tengja Ísland við umheiminn. Alvarlegt sambandsrof sæstrengjanna eða ljósleiðaratenginga hér á landi getur gert Ísland að mestu sambandslaust við umheiminn og haft alvarlegar afleiðingar fyrir hagsmuni íslenska ríkisins, jafnt efnahags-, öryggis-, varnar- og almannahagsmuni, líkt og bent er á í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá því í febrúar á síðasta ári um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum. Hér er hætta sem við verðum að taka alvarlega og vönduð áhættugreining þarf að vera til staðar sem og viðbragðsáætlun.

Frú forseti. Næst vil ég víkja aðeins að matvælaöryggi og þá vil ég sérstaklega beina sjónum að áburði í landbúnaði. Utanríkismálanefnd átti fróðlegan fund fyrir skömmu með framkvæmdastjóra Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum komu m.a. fram áhyggjur hans af áburðarskorti, en Rússar eru einn stærsti framleiðandi áburðar í heiminum. Það er öryggismál fyrir okkur Íslendinga að við séum sjálfbær í áburðarmálum og ég tel fullt tilefni til þess að við leggjum okkur sérstaklega fram um að svo verði, jafnvel með því að hér verði reist áburðarverksmiðja að nýju. Ef við berum ekki áburð á tún þá lækkar framleiðni kjötframleiðslu um 30–50%. Sé ekki borið á tún a.m.k. annað eða þriðja hvert ár þarf að fletta, plægja og sá aftur í túnið. Fái kýr ekki það kjarnfóður sem þær þurfa getur mjólkurframleiðslan minnkað frá 6–7.000 lítrum á ári niður í minna en 4.000 lítra á ári. Í skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi, sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið árið 2021, segir að um 80–90% af korni, áburði og fóðri sem flutt er inn til Íslands komi frá Evrópusambandinu. Þessi hrávara er beintengd Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu og hefur einungis stutta viðkomu í Evrópusambandinu þegar henni er pakkað þar. Fosfór er gott dæmi um hrávöru sem er okkur frekar framandi en er gríðarlega mikilvæg í áburð. Hvít-Rússar og Rússar eiga um 50% af allri fosfórframleiðslu í heiminum. Því hefur m.a. verið varpað fram hvort ríkið ætti að kaupa hrávöru sem eins konar tryggingu til að verja okkur gegn áföllum og hækkandi verðum sem hafa bein áhrif á verðlag á Íslandi.

Ógnir sem steðja að okkur Íslendingum eru ekki bara utanaðkomandi eins og við vitum. Við lifum í landi þar sem náttúruöflin geta breytt lífi okkar á skömmum tíma. Því verður að taka mið af ógnum sem tengjast náttúruhamförum, eins og segir í þingsályktunartillögunni, og í því sambandi vil ég aðeins nefna hér í lokin gosin í Geldingadölum, þann merkilega atburð sem hafði ekki gerst í 800 ár. Jarðvísindamenn hafa einmitt sagt okkur að þetta geti verið upphafið að tímabili þar sem komi nokkur gos og verið er að skilgreina eldvirkni á skaganum. Þetta lýtur m.a. að flutningskerfi raforku til Suðurnesja og öryggi þess, einkum með tilliti til jarðhræringa sem hafa átt sér stað á Reykjanesi, en deilt hefur verið um nauðsyn þess að styrkja flutningskerfi raforku til Suðurnesja. Deilan hefur ekki snúist um nauðsyn þess að setja upp kerfið eða styrkja það, heldur með hvaða hætti það er gert, hvort það er gert í loftlínu eða með jarðstreng. Þessar deilur hafa staðið yfir í langan tíma og því miður hafa stjórnvöld ekki staðið sig nægilega vel í að reyna að liðka fyrir lausn deilunnar. Í því sambandi vil ég segja að við verðum að skoða alla möguleika. Þess vegna tel ég, og hef talað fyrir því hér áður, að við ættum að skoða hugmyndir sem hafa komið fram um sæstreng milli Straumsvíkur og Suðurnesja. Þær hugmyndir eru ekki nýjar af nálinni en ég tel hins vegar fullt tilefni til að skoða þennan möguleika nú af fullri alvöru, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem gerst hafa á Reykjanesskaganum og þess að vísindamenn telja að við séum að fara inn í langt tímabil jarðhræringa á Reykjanesi. Því er margt sem þarf að skoða og ég fagna því að þessar breytingar séu komnar fram. Þær eru nauðsynlegar og ég held að það hafi sýnt sig að þessi þjóðaröryggisstefna hafi höfðað vel til þeirra málefna sem upp hafa komið núna á skömmum tíma, en hún þarf að sjálfsögðu alltaf að vera í fullri endurskoðun. Ég tel því mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að þetta fái góða umræðu og verði samþykkt.