Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:31]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður kemur inn á erum við náttúrlega að ræða margt annað en öryggis- og varnarmál hér og þar á meðal að byggja upp öfluga og áfallaþolna innviði. Hver er skoðun hv. þingmanns á þeim málum? Nú heyrir maður kannski ekki mikið frá hans flokki um þessi mál, varðandi raforkukerfið, hversu miklu það skiptir að byggja upp meginflutningskerfi raforku og slíka þætti, flugvellina, alþjóðaflugvellina, bara þannig að það virki allt hjá okkur. Nú veit maður ekki almennilega hver skoðun hv. þingmanns er eða hans flokks almennt á aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, hvernig hv. þingmaður sér það fyrir sér að þetta verði best gert, varðandi fjölþáttaógnir, netöryggismálin og almennt að treysta varnir lands og þjóðar í þessu samhengi. Það væri áhugavert fyrir umræðuna að fá þetta fram. Ég hef setið hér í sex ár og lítið heyrt af þessu úr hans átt.