132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:29]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt að ég vil, og minn flokkur, skynsamlega nýtingu á náttúruauðlindum landsins sem m.a. getur falist í að nota þær til orkuöflunar eða falist í því að vernda þær til framtíðar, nota þær til okkar eigin yndis og yndis ferðamanna sem hingað koma o.s.frv. En ég var nú ekki að spyrja um þetta, forseti, heldur var ég að spyrja um hvaða reglur giltu um þau vilyrði sem ráðherra hefur samkvæmt þessu frumvarpi rétt til að veita rannsóknarfyrirtækjum. Viti hv. formaður iðnaðarnefndar það ekki þá á hann að koma og biðjast afsökunar á þeirri ræðu sem hann flutti hér því hann flutti hana þannig að hér væri um mikið framfaraspor að ræða og ef maður vissi ekkert annað um málið en það sem maður heyrir frá formanni iðnaðarnefndar þá er hér allt klárt og kvitt. Þess vegna geng ég eftir því sem er nú eitt aðalmálið í þessu, þ.e. hvaða reglur eru það sem ráðherra eru gefnar í hendurnar þegar hann veitir þetta vilyrði?