138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel einmitt að þarna hafi ríkisstjórnin verið að gera einhver stærstu mistökin í þessu Icesave-máli. Það liggur fyrir að Brussel-viðmiðin eru hvergi í samningunum, þ.e. efnislega eru þau hvergi í samningunum. Indefence-hópurinn benti meðal annarra á að það eitt að setja setningu sem hljóðaði svo: „Brussel-viðmiðin eru inni í samningunum“ án þess að þau sé nokkurs staðar að finna sé eitthvert það mesta grín sem Alþingi stendur frammi fyrir.

En það er ekki bara grín, virðulegi forseti, það er líka stórhættulegt vegna þess að það er hárrétt, sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á, að ef einhvern tímann kemur til ágreinings um túlkun á samningunum mun þetta verða það fyrsta sem breskir dómstólar, nota bene, munu telja sýna að Íslendingar hafi samið frá sér allan rétt. Þeir munu líka benda á þá sorglegu staðreynd að Íslendingar hafa viðurkennt að þeir gangist undir skuldbindinguna jafnvel þó að þeir eigi ekki að greiða.

Stjórnarliðar hafa gumað af því að það sé hið besta mál að það standi í samningunum, að það sé gott, að Íslendingar viðurkenni ekki lagaskylduna. Þeir átta sig ekki á því að um leið og þú undirgengst einhvern samning og viðurkennir að þú vitir að þú sért beittur hótunum og nauðung, að það sé gert með fullri meðvitund, ertu að afsala þér rétti. Það eru einfaldlega skýr ákvæði (Forseti hringir.) um þetta í íslenskum rétti og ég veit að breskur réttur (Forseti hringir.) gengur mun lengra í því en sá íslenski.