139. löggjafarþing — 38. fundur,  29. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[17:25]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég ætla alls ekki að draga í efa mat hv. þingmanns á því að dómur Hæstaréttar í máli ábyrgðarmanna hafi ekki áhrif á þetta frumvarp. Það má vel vera að svo sé, enda nefndi ég það í fyrra andsvari mínu að ég hefði ekki lesið þann dóm saman við það frumvarp sem hér er verið að fjalla um.

Ég vildi hins vegar vekja athygli á því að þessi dómur hefði fallið, að umboðsmaður skuldara teldi að dómurinn hefði mjög mikil áhrif á lögin um greiðsluaðlögun einstaklinga og setti þau a.m.k. að einhverju leyti í uppnám. En ég tel mikilvægt að þetta atriði málsins verði metið þannig að löggjöfin standist, leiði þetta til málaferla í framtíðinni, ekki síst í ljósi þess að nú hefur komið fram að þingið fékk ábendingar um það áður en það samþykkti lög um ábyrgðarmenn að ákvæði þeirra mundu ekki standast ákvæði stjórnarskrár. Engu að síður varð það frumvarp að lögum án þess að tillit væri tekið til þeirra athugasemda. Þar er auðvitað á ferðinni dæmi um mistök við lagasetningu á Alþingi sem hefur haft slæm áhrif.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Vonandi er það svo að hæstaréttardómurinn hafi ekki áhrif á það frumvarp sem hér er til meðferðar og allir eru sammála um að eigi að afgreiða með þeim hætti sem lagt er til, en ég fagna því að hv. þingmaður ætli að beita sér fyrir að þetta atriði verði skoðað sérstaklega.