141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu að hæstv. velferðarráðherra sé með hugmyndir um að flytja sjúkraflutninga til Landspítalans. Ég vek athygli á því að um afskaplega stórt og mikilvægt mál er að ræða. Það hefur líka komið fram í fjölmiðlum að Landspítalinn hefur ekki sóst eftir þessu.

Ég þekki nokkuð til þessa málaflokks. (Gripið fram í.) Þetta var skoðað mjög vel í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins, hún hét það alveg fram á haustið 2008 en eftir það var hún bara ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, og þar kom þetta aldrei fram. Sérstakur vinnuhópur skoðaði sjúkraflutninga, fór í alla þætti málsins og kom með tillögur til úrbóta en þar kom þetta aldrei fram. Ég veit ekki til þess að í þeim hópum sem hafa skoðað málið í framhaldinu eða í þeim úttektum og skýrslum sem hafa verið gerðar hafi neitt annað komið fram en að það fyrirkomulag sem er til staðar núna sé faglega gott, og ekki bara faglega heldur fjárhagslega líka.

Eina dæmið sem við þekkjum þar sem við förum aðra leið, er í Árborg, og þar er einingaverðið langhæst á þessum flutningum, rúmlega fjórum sinnum hærra en á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna kemur verulega á óvart að sjá þetta í fjölmiðlum.

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. velferðarnefnd til að fara yfir þetta mál. Ef það er raunverulegur vilji hæstv. ráðherra að gera þetta held ég að fyrir því þurfi að koma mjög sannfærandi rök. Niðurstöður vinnuhópa sem og skýrslna og úttekta, (Forseti hringir.) sem eru fjölmargar, benda allar til þess að það sé hagkvæmt, bæði faglega og fjárhagslega, (Forseti hringir.) að vera með sjúkraflutninga í samvinnu við (Forseti hringir.) Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.