141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:21]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa brýnu umræðu, hún er fyllilega tímabær og mig langar að hefja mál mitt á því að hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir framgöngu hans í málefnum Palestínu undanfarin ár og Alþingi fyrir að viðurkenna Palestínu sem fullvalda ríki. Ísland hefur stigið mjög mikilvæg skref en það má ekki láta staðar numið, ástandið hefur ekkert skánað og nú á sér stað áframhald á hægfara þjóðarmorði á Palestínumönnum fyrir botni Miðjarðarhafs, þjóðarmorð sem hefur varað í langan tíma en ætlar engan endi að taka. Ár eftir ár eykst kúgunin, ofbeldið og ofríkið og markmiðið er greinilega að afmá Palestínumenn og Palestínuríki. Sjaldan veldur einn er tveir deila er máltæki sem á fyllilega við hér við þessar aðstæður, en svarið í svoleiðis deilumáli má ekki og getur ekki verið þjóðarmorð á andstæðingnum. Það er algjörlega óboðlegt.

Framganga Ísraelsríkis er einfaldlega sú að útrýma palestínsku þjóðinni og við því verður að bregðast. Ísraelsríki hefur um áratugaskeið hafnað friði á þessu svæði og það er kominn tími fyrir Ísland að stíga skref í átt að því að hvetja til einangrunar Ísraelsríkis á alþjóðavettvangi, slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og banna innflutning á vörum frá Ísrael. Vissulega erum við lítil þjóð en við berum sögulega ábyrgð á tilurð Ísraelsríkis og afstaða okkar í þessu máli vekur meiri athygli en afstaða annarra þjóða. Það voru Íslendingar sem beittu sér sem mest fyrir stofnun Ísraelsríkis á sínum tíma og ég leyfi mér að halda því fram að menn hefðu aldrei nokkurn tímann gert það ef þeir hefðu vitað hvert stefndi, þannig að mig langar að lýsa því hér yfir að fram undan er þingsályktunartillaga sem verður lögð fram í þessari viku (Forseti hringir.) um að stjórnmálasambandi við Ísrael verði slitið og hvatning um að Norðurlöndin taki undir þá tillögu.