141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst koma inn á það sem ég hef heyrt hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson nefna áður, að svarið við spurningu um þjóðkirkjuna hafi komið þeim sem komu henni á dagskrá, ef svo má segja, á óvart. Svarið kom mér alls ekki á óvart. Það var ég sem lagði til að þessi spurning færi þarna inn og það var nokkur umræða um hvort hún ætti að fara þarna inn. Það var síðan fallist á það. Svarið kom mér ekki á óvart.

Síðan er það hin víðtæka sátt. Hvað þýðir víðtæk sátt? Er það að minni hlutinn ráði? Er það hin mikla víðtæka sátt?

Ég vil líka lýsa því hér yfir skýrt og greinilega að það er ekki vilji minn að keyra þetta mál áfram á meirihlutaræði eða einhverju sem þingmaðurinn vill kalla svo. Það er hins vegar staðreynd í lýðræðisþjóðfélagi að ef menn ná ekki samkomulagi er það meiri hlutinn sem ræður. Um hvað vill hv. þingmaður ná víðtækri sátt? Vill hann henda þessu plaggi sem búið er að vinna að, eins og raun ber vitni? Komi hann með tillögur sínar getum við kannski náð víðtækri sátt.