141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:14]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég átta mig nú ekki á því hvaða upphlaup er hér í gangi. Ég hef fylgst með umræðunni í allan dag, hún hefur farið sómasamlega fram. Það hefur hins vegar verið ástæða til að hrökkva í kút í einstaka tilfellum þegar hér hefur verið farið með fleipur, rangfærslur og ósannindi um það hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig og jafnvel hvað stendur í þeim plöggum sem við erum að vinna með. Menn hljóta auðvitað að gera kröfu til þess að þegar við ræðum þetta stóra og mikla mál sé það gert af alvöru, sanngirni og heiðarleika.

Ég hvet þá sem eiga eftir að halda áfram í umræðunni á næstu dögum, vikum og mánuðum að við höldum umfjölluninni á því plani og tel að það sé sómi þingsins sem felist í því að þeir sem leggja inn í umræðuna geri það af sanngirni og heiðarleika.