143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

kjarasamningar og gjaldskrárhækkanir.

[15:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Kjarasamningar eru lausir, slitnað hefur upp úr viðræðum milli almennra stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins og málið er komið til ríkissáttasemjara. Áhersla Starfsgreinasambandsins var á blandaða leið krónutöluhækkunar og prósentuhækkunar, krónutöluhækkunar á lægstu laun, um 20 þús. kr., sem kemur fólki í Starfsgreinasambandinu langbest. Samtök atvinnulífsins hafa hafnað þeirri kröfu og ber mikið á milli. Innlegg Seðlabanka Íslands um að launahækkanir mættu ekki vera verðbólguhvetjandi geta vart átt við þessa hógværu kröfu Starfsgreinasambandsins, en aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir því að opinberir aðilar haldi að sér höndum í verðlagsbreytingum og gjaldskrárhækkunum sem óhjákvæmilega valda verðbólgu og eru ekki til þess að skapa efnahagslegan stöðugleika.

Mig langar til að heyra frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort ríkisstjórnin hafi hugsað sér að endurskoða áform sín um uppfærslu á gjaldskrám og þjónustugjöldum ríkisins líkt og Reykjavíkurborg hefur gert. Stéttarfélögin hafa skorað á sveitarfélög og opinbera aðila að gera slíkt hið sama. Telur hann það ekki þess virði að koma með það innlegg í kjarasamningana fram undan og mæta þessum stéttarfélögum sem eru með hjá sér láglaunafólk og munar mikið um það að ekki fari af stað skriða verðhækkana í kjölfarið og verðbólgan rjúki upp úr öllu valdi? Hún er versti óvinur þjóðarinnar, sérstaklega láglaunafólks þegar litlar kauphækkanir brenna upp á verðbólgubáli.