143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera, en þó tel ég að það hafi verið þannig að Helguvík hafi ekki átt að koma inn fyrr en á árinu 2015, alla vega þyngst, en þó að einhverju leyti á næsta ári. Jú, það munar um hana og það munar líka aldeilis um þau hagvaxtarskapandi verkefni sem verið er að skera niður og ég fór yfir áðan. Það munar um þetta allt. En ég hef mestar áhyggjur af því — af því að við vitum það, ég og hv. þingmaður, hún situr í fjárlaganefnd — að áhrifin hafi ekki verið metin enn þá.

Þess vegna segi ég að það er mjög mikið óráð að mínu mati að ætla að skera niður þessi hagvaxtarskapandi verkefni, ekki síst þegar menn eru að fá fregnir af því að stór verkefni eins og álverið í Helguvík sé líklega út af borðinu.

Ég vil líka nefna að kosturinn við svona verkefni — þá er ég að tala um hagvaxtarskapandi verkefni eins og í gegnum Tækniþróunarsjóð, gegnum endurgreiðslur á rannsókna- og þróunarkostnaði og almennan stuðning við hugverkageirann — að þar getum við verið að byggja upp jafnan og þéttan vöxt til lengri framtíðar á meðan ókosturinn við það að sitja alltaf og bíða eftir einni verksmiðju er að þetta eru viðskiptalegar ákvarðanir, en líka að þetta eru ekki svo mörg störf sem koma út úr hverri og einni slíkri fjárfestingu á meðan það er ótakmarkað hvað getur orðið til af störfum í þessum geira. Bara af þeim 13 fyrirtækjum sem ég nefndi í ræðu minni áðan sem fengu úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 hefur starfsmönnum fjölgað þar um 500, á tímabilinu 2005–2012. Þarna eru því gríðarlegir vaxtarmöguleikar sem við megum ekki horfa fram hjá. Mér finnst það vera gert í þessu frumvarpi, mér finnst vera horft fram hjá þeim vaxtarmöguleikum (Forseti hringir.) í íslensku samfélagi.