143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú var tíðin að ég var ægilega mikið á móti þrepaskiptu skattkerfi og þegar talað er um skattkerfi er alltaf sagt að þeir sem þéna meira eigi að borga meira og ég sé ekki betur en að allir séu sammála því. Svo er kannski spurning hvort það eigi ekki að vera sama prósenta fyrir alla.

Síðan vex maður úr grasi og þroskast aðeins og maður lærir það fyrr eða síðar að svona kerfi þar sem er bara eitt skattþrep eru ekki það algeng og t.d. í Bandaríkjunum eru sjö þrep í tekjuskattskerfinu, og seint fer maður nú að kalla Bandaríkin háttvirt einhverja sósíalistaparadís. Af fordæmum í heiminum þykir mér augljóst að þetta er alla vega eðlilegt. Sömuleiðis get ég sagt að ég hef yfirleitt verið millitekjumaður sem forritari og ég hef aldrei séð neina ástæðu til þess að grenja yfir einhverri örlítið hærri prósentu sem þar að auki leggst bara ofan á tekjur sem fara yfir ákveðin mörk. Mér hefur aldrei þótt ástæða til að grenja yfir því og furða mig í raun og veru stundum á því hvernig fólki getur fundist þetta sérstaklega mikilvægt, hvort það borgi 40% eða 46% þegar það er þó með nógu miklar tekjur til þess að bæta það upp. Vill maður ekki leggja eitthvað til samfélagsins? Það er það sem ég spyr mig oft að.

Hvað varðar skuldamálin — nú brann ég alveg á tíma — og það sem Lars Christensen sagði, þá er ástæða fyrir því að við píratar lofuðum ekki svona skuldalækkunum í kosningabaráttunni. Það var vegna þess að við sáum ekki fram á hvernig væri hægt að gera það með skynsamlegum hætti. Nú hef ég séð þessar hugmyndir og það eina sem ég vil í rauninni segja um þessi skuldamál er að ég vona að aðgerðirnar heppnist vel. Ef ég væri einráður — sem ég vona að ég verði aldrei eða neinn annar ef út í það er farið — hefði ég sett á svona bankaskatt og ég hefði notað hann til að borga niður skuldir ríkissjóðs vegna þess að ég tel það vera eitt af mikilvægustu málefnunum. Ef þessir ægilega miklu peningar eiga að koma þaðan þá held ég að það væri hægt að nota þá í það, ég held að það væri skynsamlegra. Að sama skapi hef ég lofað, eða ekki lofað heldur hef ég sagt að ég mun ekki standa í vegi fyrir þessum aðgerðum og því er ekkert eftir nema að bíða og vona.