146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:10]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér matvælaframleiðslu. Hún er bundin við landbúnað, sýnist mér, ekki sjávarútveg, eins gott að vita það. Þar er ýmis vandi á lofti. Þar eru ofnýtt vistkerfi, beitarmálin. Það er losunin. Samdrátturinn er varla hafinn í landbúnaði. Þar er samþjöppun afurðastöðva sem minnst var hér á, sem þarf auðvitað að mæta með dreifingu þeirra upp á nýtt, og það eru verslunarhættirnir sjálfir. Við erum neydd til að versla mestan partinn í stórum verslunum þar sem eru forpakkaðar vörur, sem er uppruni matarsóunar, og það er mjög lítið val og lítið af opnum mörkuðum. Það er í raun og veru mjög erfitt að höndla loftslagsvænt með mat á Íslandi, það hefur sýnt sig. Það er verk að vinna að laga það.

Þegar kemur að innflutningi stöndum við frammi fyrir því að við höfum hágæðavöru hér á Íslandi án verulegrar lyfjanotkunar, án sjúkdóma í stórum dráttum. Í þeirri jöfnu þegar verið er að ræða um hag neytenda kemst nákvæmlega ekkert annað að í langflestum tilvikum en krónur og aurar og vöruvalið. Loftslagsvíddin í innflutningsmálum matvæla á Íslandi er nánast ekki til. Við heyrum hana hér svona af og til. Hún er ekki í umræðunni úti í samfélaginu. Hún er ekki í röksemdum þeirra sem vilja auka stórlega innflutning á matvælum. Það dettur auðvitað engum í hug að banna innflutning á matvælum eins og kom hér fram í máli hæstv. ráðherra. Þetta snýst auðvitað um að finna jafnvægi milli innflutnings á matvælum og aukinnar innlendrar matvælaframleiðslu með loftslagsviðmið.

Það er ekki hægt að stilla innflutningi á matvælum upp á móti útflutningi sjávarafurða. Það gerði hæstv. ráðherra líka. Við getum auðvitað stillt af þennan innflutning miðað við verð, gæði og vistspor, um leið (Forseti hringir.) og við minnkum vistspor útfluttra sjávarafurða. Þetta er ekki annaðhvort eða, það er bæði og.