146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:22]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum, og þá sérstaklega hæstv. ráðherra, fyrir umræðuna í dag. Hún hefur verið afar fróðleg og ég held hún hafi verið gagnleg. Ég er sannfærð um að betri afmælisgjöf gátum við ekki gefið hæstv. ráðherra.

Ég fagna sérstaklega því sem ráðherra kom inn á áðan og að við séum sammála um að það er mjög mikilvægt að huga að bæði fæðu- og matvælaöryggi og að það komi að fleiri ráðherrum en hæstv. umhverfisráðherra. Eins og ég nefndi í máli mínu áðan hyggst ég halda umræðunni áfram við fleiri ráðherra vegna þess að það þarf að vera heildræn sýn sem skarast við mjög mörg ráðuneyti.

Matarsóun, það er gott að heyra að verkefnið sé í gangi í ráðuneytinu. Ég er spennt að fylgjast með því hvernig það gengur. Ég er líka ánægð að heyra að ræktarland sé ekki í forgangi varðandi endurheimt votlendis og að byrja eigi annars staðar alla vega þar til við höfum frekari upplýsingum. Það er mikilvægt að við vöndum okkur sérstaklega í því.

Ég nefndi áðan skýrslu sem Samband garðyrkjubænda lét gera fyrir sig fyrir ekki svo löngu síðan um kolefnisspor garðyrkjunnar. Hv. þingmenn Kolbeinn Proppé og Haraldur Benediktsson töluðu um það í ræðum sínum áðan að mjög mikilvægt væri að við hefðum meiri upplýsingar en við höfum nú um kolefnisspor, ekki bara garðyrkjunnar heldur annarra framleiðsluafurða. Skýrsla garðyrkjunnar er til fyrirmyndar og ég held að við stjórnvöld eigum að skoða hana með það í huga að nýta upplýsingarnar fyrir aðrar framleiðsluafurðir.

Það er margt sem mig langar til að segja en svona rétt að lokum þá hef ég ekki þá skoðun að við eigum að banna innflutning á matvælum, síður en svo. Við erum sammála um að við þurfum mögulega að stýra framleiðslunni betur en við höfum gert með tilliti til sjálfbærnisjónarmiða og að tryggja fæðuöryggi og gæði matvæla á Íslandi.