146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:21]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér ásakanir um að ég hafi stundað hér að mismuna fólki. Þinn stjórnarflokkur, hv. þingmaður, hefur mismunað fólki og þjóðinni í eitt hundrað ára sögu sinni og ég hef hvergi komið þar nálægt. [Hlátur í þingsal.] Þannig að um mismunun af minni hálfu er ekki að ræða.

Hv. þingmaður gat nú ekki svarað nokkurri spurningu og brigslaði mér um alls konar vammir og skammir, eins og um minni mitt. Ég hef ágætisminni og veit töluvert um lántökur á síðustu 15 árum, sem voru kannski ekki í miklu hófi vegna þess að bankar hegðuðu sér eins og kjánar, vegna þess að bankakerfið var glæpvætt að hluta. Það er önnur saga.

En ég ætla að spyrja: Hver er munurinn á verðbólguskoti sem kann að verða …? Hefur hv. þingmaður gengið í gegnum greiðslumat og kynnt sér hvernig það fer fram? Ég er þolandi í slíku máli og geri mér alveg fyllilega grein fyrir því að menn verða (Forseti hringir.) alla vega að sýna fram á að þeir geti borgað.