146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[17:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einfalda svarið við þessu er að við gætum sótt fulla aðild að Evrópusambandinu. (SMc: Eigum við ekki að gera það þá?)Eins og hv. þingmanni er eflaust kunnugt hef ég talið að það væri æskilegt fyrir Ísland að halda áfram á þeirri braut. En við verðum hins vegar að átta okkur á því að í þessu máli sem hv. þingmaður víkur að þá eigum við í sjálfu sér ákveðna aðkomu að þessum stofnunum þótt við höfum ekki stjórnunarvald yfir þeim. Fjármálaeftirlitið hefur, hygg ég, fulltrúa í ráðgjafaráði stofnananna, ég man nú ekki alveg hvað það ráð heitir, og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins að ég hygg og veit reyndar að ýmsir aðrir sem starfa á fjármálamarkaði hafa sótt hjá þeim fundi og ráðstefnur. Það er því ekki þannig að við séum einangruð frá þessum stofnunum heldur höfum við haft við þær mikilvæg samskipti sem auðvitað skiptir mjög miklu máli vegna þess að við viljum taka sem virkastan þátt í þessu eftirliti og gæta þess að reglurnar sem íslensk fjármálafyrirtæki undirgangast séu með sama hætti og sama öryggi hér á landi og annars staðar í Evrópu.