148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:57]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir þetta andsvar. Það sem mér dettur helst í hug að gæti verið ástæðan fyrir því að þetta frumvarp hafi ekki komið fram fyrr er að ríkisstarfsmenn hafi svona góð lífeyrisréttindi. En ég hef nú heyrt ansi marga kvarta yfir því að þau séu ekki nægilega góð.

Ég held að mjög margir sem hafa starfsorku, og þeim fjölgar sífellt, myndu gjarnan vilja vinna lengur, í eitt, tvö, þrjú ár, kannski jafnvel lengur. Mjög margir hafa enn fulla starfsorku á þessum aldri, sem betur fer. Lífaldur á Íslandi hefur hækkað ansi mikið, eins og ég nefndi. Frá 1986 hefur lífaldur kvenna hækkað um fjögur ár og á sama tíma hefur lífaldur karla hækkað um heil sex ár. Við erum að tala um allt annað þjóðfélag en var hérna þegar þessi lög voru sett, allt annað þjóðfélag. Ég er í engum vafa um að þetta frumvarp verður rætt í nefnd og að kallað verður eftir umsögnum frá hagsmunaaðilum og þeim sem láta sig málið varða. Þá fáum við náttúrlega að heyra afstöðu þeirra.