149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

fasteignaliður í vísitölu.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í þessari vinnu er horft til þess að fylgja niðurstöðum nefndarinnar, m.a. um sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka að hluta eða heild. Við horfum á það sem verkefni að þetta verði sameining, heildarsameining þessara tveggja stofnana, og það þýðir breytt stjórnskipulag á Seðlabankanum. Það þýðir fjölgun aðstoðarseðlabankastjóra til að hafa eftirlit með ólíkum þáttum því að fjármálaeftirlit og fjármálastöðugleiki verða ríkari þættir í starfi Seðlabankans en áður.

Hvað varðar síðan það sem hv. þingmaður nefndi hér í sinni fyrri fyrirspurn þá tel ég rétt að við fáum tækifæri til að ræða það í þinginu, af því að Seðlabankinn hefur haldið fram öðrum sjónarmiðum þegar kemur að húsnæðislið neysluvísitölunnar og telur að þetta sé svo ríkur þáttur í almennri eyðslu landsmanna að rétt sé að mæla hann með einhverjum hætti. En nefndin, eins og ég sagði áðan, kemst að allt annarri niðurstöðu. Starfshópurinn sem fer með þetta verkefni, endurskoðun laga um Seðlabankann, fer enn fremur með önnur verkefni, endurskoðun (Forseti hringir.) á samningi Seðlabankans og ríkisins um verðbólgumarkmið Seðlabankans og annað slíkt. Þannig að ég vænti þess að við fáum tækifæri til að (Forseti hringir.) ræða þetta hér á þingi eftir áramót.