151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

ferðagjöf.

377. mál
[16:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd Viðreisnar fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum um ferðagjöf. Ferðagjöfin hefur gengið þokkalega. Mér fannst þetta strax frá upphafi vera áhugaverð nálgun og fagnaði henni og við sjáum þokkalega jákvæð áhrif af þessu. En síðan erum við einfaldlega líka að horfast í augu við þann veruleika sem blasir við núna. Það liggur fyrir að það er ákveðinn geiri, ekki síst menningar- og listageirinn, sem á verulega undir högg að sækja, svo að vægt sé til orða tekið, ásamt ferðaþjónustu. Þess vegna leggjum við í Viðreisn fram tillögu sem felur í sér viðbótargjöf til bjargar og stuðnings menningu, listum og ferðaþjónustu þar sem við teljum að hækka eigi inneignina upp í 15.000 kr., sem sagt viðbótargjöf.

Við leggjum til að á eftir 2. mgr. 1. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi: Viðbótargjöf menningar og lista er stafræn 15.000 kr. inneign útgefin af stjórnvöldum til einstaklinga 12 ára eða eldri með íslenska kennitölu og með skráð lögheimili á Íslandi. Inneign þessi er ekki framseljanleg.

Við 3. mgr. bætast tveir nýir töluliðir — og þar teljum við upp í 6. og 7. tölulið leikhúsin og menningarhúsin sem þetta á við um. Við nefnum Borgarleikhúsið, Gaflaraleikhúsið, Hof Menningarhús, Kómedíuleikhúsið, Leikhús Akureyrar, Tjarnarbíó, Þjóðleikhúsið og önnur leikhús sem hafa boðið upp á sýningar gegn endurgjaldi á sl. 12 mánuðum og einnig fyrirtæki sem hafa boðið upp á sýningu á leiklist, danslist, tónlist, brúðuleik og skyldri liststarfsemi gegn endurgjaldi á sl. 12 mánuðum. Skal inneignin gilda fyrir sýningar á sviði og í beinni útsendingu á internetinu.

Við sjáum þá þróun, sem er mjög ánægjuleg í þessum erfiðu aðstæðum, að listamenn eru, eins og við mátti búast, útsjónarsamir í því hvernig hægt er að halda áfram að miðla list og menningu til okkar Íslendinga, og ég hvet okkur öll til að taka vel í það, með alls konar tónleikum og öðrum menningarviðburðum sem verið er að bjóða upp á næstu daga og vikur. Við leggjum til að í stað dagsetningarinnar 31. desember 2020 komi 30. júní 2021. Þetta er til að veita þessum hópum stuðning.

Við í Viðreisn höfum ítrekað komið með tillögur, sem vel að merkja voru allar felldar af hálfu meiri hlutans, um að veita veitingahúsunum, einyrkjum, litlum ferðaþjónustufyrirtækjum, bæði hér og á landsbyggðinni, viðspyrnu. Við þreytumst ekki á að sýna fram á að við þurfum að taka utan um þennan hóp neðan á þessu tímabundna ástandi stendur, meðan á þessum náttúruhamförum stendur, til að viðspyrnan verði kröftug og öflug. Þegar við höfum náð fram áhrifum af bólusetningu, og náð andrými til að fara af stað aftur, verðum við líka að tryggja að fólk hafi bæði í sig og á og sé tilbúið í viðspyrnuna sem við sem samfélag köllum eftir til að auka verðmæti, auka hagvöxt, fara af stað til að við getum síðan á endanum bæði hlaupið hraðar og staðið vörð um okkar velferðarkerfi. Við þurfum að taka utan um lista- og menningargeirann með mun markvissari hætti en gert hefur verið og þess vegna teljum við líka að ýta þurfi undir ákveðna neyslu meðal okkar, hvetja fólk til þess að neyta menningar og listar. Til þess er leikurinn gerður, með þessari breytingartillögu, sem ég vona svo innilega, virðulegi forseti, að verði samþykkt hér á þinginu. Það veitir ekki af að viðspyrnan verði sem kröftugust. Að mínu mati er erfitt að fara í viðspyrnu án þess að listir og menning blómstri með okkur því að það er lífæð í samfélaginu.