151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir fyrirspurnina. Það kom auðvitað strax í ljós að verktakagreiðslurnar voru fyrir utan þetta frumvarp. Í þeim skilaboðum og umsögnum sem nefndin fékk frá íþróttaforystunni og var talið upp hér áðan var lögð mikil áhersla á að verktakagreiðslur yrðu teknar inn í lagafrumvarpið. Það var alla vega ekki talað um, svo að ég muni eftir, að það væru sérstök lög um verktaka, heldur var ákveðið að taka þetta inn á þann hátt sem hér er gert.

Fyrir liggja upplýsingar frá íþróttafélögum sem benda til þess að 60% þeirra sem starfa hjá þeim séu á verktakagreiðslum. Það var því mjög stórt hagsmunamál fyrir hreyfinguna að verktakagreiðslur væru teknar inn og lagði hún gríðarlega áherslu á það í öllum samtölum sínum við nefndina. Það kom fram í viðræðum við Skattinn að með stórum hluta verktakagreiðslna væri mikill kostnaður; bifreiðakostnaður, aksturskostnaður, fatakostnaðar og ýmislegt annað sem íþróttamenn bera af störfum sínum. Talið var að þar sem æfingar og keppnir féllu niður yfir þetta tímabil félli þessi kostnaður sem hefur verið tilgreindur á verktakagreiðslum líka niður. Það var því niðurstaða nefndarinnar að skurðpunkturinn á þessari upphæð væri 70%. Ég get alveg sagt það hér að eðlilegt er að við deilum eitthvað um það. En þetta er niðurstaða nefndarinnar og við leggjum þetta svona fram.