151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs. Ég held að óhætt sé að segja að ánægjulegt er að sjá hvað þingheimur hefur náð vel saman um þetta mál í öllum megindráttum. Hér er um að ræða eina stærstu fjöldahreyfingu landsins, þ.e. íþróttahreyfinguna, með fleiri þúsund sjálfboðaliðum og líklega eitthvað á annað þúsund starfsmenn, ef ekki fleiri, sem eru á ýmsum greiðslum. Ég ætla ekki að tíunda í smáatriðum það sem kom fram á fundum nefndarinnar, aðrir nefndarmenn hafa farið yfir það, en ég ætla aðeins að staldra við verktakagreiðslurnar, eins og aðrir þingmenn hafa gert, því að það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því að launastrúktúrinn í íþróttafélögunum er oft í verktakagreiðslum af ástæðum sem eru kannski ekki öllum ljósar. Oft og tíðum eru þetta mjög tímabundin störf. Stundum geta þetta verið störf jafnvel í nokkra mánuði eða einangruð verkefni til skamms tíma og því ekki óeðlilegt að um verktöku sé að ræða.

Hins vegar má engu að síður segja að verktakan sé að sumu leyti öðruvísi en kannski þegar maður kaupir sér smið til vinnu eða eitthvað þess háttar því að það er í sjálfu sér ákveðið ráðningarsamband á milli þess sem vinnur vinnuna og íþróttafélagsins sem hann starfar fyrir. Þannig er 3. töluliður í breytingartillögum nefndarinnar kominn til, að við 3. gr. bætist tveir nýir töluliðir, annars vegar verktakagreiðslur og hins vegar verktaki. Þarna er skilgreining á því hvað átt er við með annars vegar verktakagreiðslum, þ.e. tilteknar verktakagreiðslur fyrir störf sem snúa beint að íþróttastarfi viðkomandi íþróttafélags, og hins vegar verktaka, sem er sá sem starfar beint við ástundun, þjálfun og aðstoð hjá íþróttafélagi samkvæmt samningi um verktakagreiðslur.

Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að hér er ekki á ferðinni að breyta í einhverjum grundvallaratriðum skilgreiningunni á verktaka eða verktöku yfirleitt í skattalegum skilningi, alls ekki, heldur er hér um að ræða að horfast í augu við það að þarna er sérstakt samband á milli þess sem vinnur starf fyrir íþróttahreyfinguna og íþróttahreyfingarinnar. Það er í rauninni nokkurs konar starfsmannasamband en er yfirleitt leyst með þessum hætti. Þess vegna er þetta leyst svona í frumvarpinu og í rauninni farin sú leið sem ég hef tíundað.

Það hefur komið fram við rekstur málsins fyrir nefndinni að það eru fleiri félög þarna úti, eins og frjáls félagasamtök, æskulýðsfélög og fleiri, sem hafa ekki náð inn í það skjól, skulum við segja, alla vega ekki í nægilega miklum mæli, sem aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins hafa náð til og þá kannski sérstaklega ekki hlutabótaleiðina.

Eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á áðan liggur fyrir þinginu breytingartillaga við 300. mál sem gengur út á það að þeir aðilar nái inn í hlutabæturnar og þannig tryggt að þörfum þeirra verði líka mætt, enda kann þar að vera ýmiss konar starfsemi, oft með þó nokkrum starfsmönnum, sem hefur jafnvel orðið fyrir búsifjum vegna faraldursins og sem hefur ekki beinlínis verið mætt, skulum við segja, og því ástæða til og rétt að taka fram að þar njóta íþróttafélögin líka þess ávinnings sem felst í því að bæta frjálsum félagasamtökum í hlutabæturnar. Við skulum ekki gleyma því.

Það hefur nokkuð verið rætt um hvort fara ætti alla leið í 90% eða jafnvel fulla prósentu hvað varðar verktakagreiðslurnar og hvort það sé eðlilegur munur á þeim verktakagreiðslum sem eru tilteknar í breytingartillögu nefndarinnar eða hvort þessar greiðslur ættu að vera hærri. Ég vil í því sambandi benda á að það er ekkert lágmark. Það er ekkert lágmark í sjálfu sér í þessu frumvarpi eins og reyndar er í mörgum öðrum frumvörpum sem hafa verið til meðferðar hjá stjórnvöldum. Í sambandi við til að mynda hlutabæturnar er gerð krafa um lágmark 25% tekjufall, þ.e. að fyrirtæki eða lögaðili hafi orðið fyrir þeim búsifjum, skulum við segja. Þess vegna má kannski segja að ekki sé óeðlilegt að það sé að einhverju leyti brugðist við því, bæði með þessu og eins með þeim skýringum sem hv. framsögumaður kom inn á, að sá kostnaður sem fellur til af íþróttaiðkun og er að hluta til mætt með verktakagreiðslunum fellur væntanlega ekki til meðan hvorki eru haldnar íþróttakeppnir né stundaðar æfingar. Hvort við höfum þarna hitt á nákvæmlega réttu prósentuna skal ég ekki segja, en þetta er sú nálgun sem ég skrifa undir og tek þátt í að flytja með öðrum nefndarmönnum og mun styðja við afgreiðslu málsins.