151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

397. mál
[17:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég get ekki sagt að ég sé hissa á þessari tillögu frá hv. þingmönnum Miðflokksins. Ég hef heyrt þá segja ýmislegt um Ríkisútvarpið og lesið eftir þá enn meira þannig að sá andi sem svífur hér yfir vötnum kemur mér ekki á óvart. Ég gæti eytt dágóðum tíma með hv. þingmanni í andsvörum og best þætti mér ef ég fengi bara öll andsvaraslottin og við gætum átt gott samtal en því miður heimila þingsköp það ekki. Ég verð að velja úr textanum það sem mér finnst eiginlega með eindæmum eins og greinargerðin er. Ég kýs því að staldra við 2. efnisgrein í greinargerð, með leyfi forseta:

„Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana.“

Hvaða dómadagsvitleysa er í gangi, forseti? Eru hv. þingmenn að halda því fram að ríkisfjölmiðlar vinni gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana? (SDG: Já, RÚV alla vega.) Eru hv. þingmenn svo leiðitamir hv. þingmanni og foringja sínum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem kallar hér fram í, að þeir geta ekki hugsað sér að aðrir geti myndað sér eigin skoðanir nema einhver segi þeim hvað eigi að hugsa? (Gripið fram í.) — Væri forseti til í að þagga niður í þessum gjammara (SDG: Segir hver?) hér úti í sal? Telur hv. þingmaður að BBC, að skandinavískir ríkisfjölmiðlar, ríkisfjölmiðlar um allan heim, vinni gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana? Eða er þetta bara enn ein aðförin að RÚV eins og birtist í gjammi hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar? (SDG: Ekki vera svona sár alltaf. Róa sig.)