151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar.

31. mál
[21:18]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar. Eins og hæstv. forseti sagði liggur tillagan fyrir á þskj. 31 og er mál nr. 31. Ég er fyrsti flutningsmaður og meðflutningsmenn eru Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórunn Egilsdóttir. Þetta er sem sagt mál sem allur þingflokkur Framsóknarflokksins stendur að og er liður í áherslum flokksins á atvinnumál og eitt af forgangsmálum þingflokksins.

Tillagan sjálf hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að hafa forgöngu um að hrinda í framkvæmd tímabundinni aðgerð sem hvetji til fjárfestinga í atvinnuþróun og greiði fyrir aðgengi atvinnuþróunarverkefna að lánsfjármagni á tímum efnahagslegs samdráttar af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru. Aðgerðin felist í ríkisábyrgð á lán sem lánastofnanir veiti lögaðilum til atvinnu- og gjaldeyrisskapandi atvinnuþróunarverkefna.

Útfærsla verkefnisins, þar með taldar tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum, liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2021. Miðað verði við að aðgerðin komi til framkvæmdar fyrir 1. mars 2021.“

Það liggur sem sagt á að koma tillögunni til framkvæmda.

Greinargerð tillögunnar er ítarleg og liggur hér fyrir á nokkrum blaðsíðum. Þar er farið yfir markmið aðgerðarinnar, þörfina og mögulega útfærslu. Talsverð vinna liggur að baki þessu máli og vil ég þakka öllum sem að því hafa komið. Ég mun ekki fara yfir greinargerðina frá orði til orðs en draga fram megináherslurnar.

Markmið tillögunnar er að tryggja að atvinnu- og gjaldeyrisskapandi verkefni hafi aðgengi að lánsfé og styðja þannig við viðspyrnu fyrirtækja. Í því skyni verði komið á fót kerfi þar sem ríkið ábyrgist að hluta lán til slíkra verkefna. Ábyrgðunum er ætlað að draga úr óvissu og áhættu þess fjármagns sem fer í arðbæra fjárfestingu á tímum samdráttar eins og við upplifum núna.

Vaxandi atvinnuleysi, samdráttur í landsframleiðslu, versnandi hagvaxtarhorfur og samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu kalla á viðbrögð stjórnvalda. Flutningsmenn hafa skoðað ýmsar leiðir til opinbers stuðnings við atvinnuþróun, svo sem styrki, skattaívilnanir og ríkisábyrgðir, en ákveðið var að leggja til ríkisábyrgðir á lán sem lánastofnanir veita lögaðilum til lítilla og meðalstórra atvinnu- og gjaldeyrisskapandi verkefna. Forsenda þess að við veljum þessa leið í tillögunni er að hún leiði ekki til útgjalda úr ríkissjóði um leið og aðgerðin hefst því ef vel tekst til skila verkefni sem heppnast tekjum í ríkissjóð umfram útgjöld vegna verkefna sem ekki lifa út lánstímann, jafnvel verulegum tekjum umfram ætluð útgjöld. Aðgerðin krefst því ekki útgjalda úr ríkissjóði nema ef fleiri ábyrgðir falla en áætlanir gera ráð fyrir. En til þess að aðgerðin nái markmiðum sínum þurfa ríkisábyrgðir til hennar að nema að lágmarki 10–15 milljörðum, en það þyrfti að útfæra betur í útfærslunni.

Í greinargerð er farið yfir stöðuna í samfélaginu. Ég sé svo sem ekki ástæðu til að rekja það allt hér. Við höfum farið í gegnum það í tengslum við fjárlagavinnu o.fl. Ég vil vekja athygli á því að það er kannski óljóst í frumvarpinu að þegar er verið að tala um atvinnuleysistölur þá er verið að tala um meðaltal árs.

Eitt af því sem liggur fyrir er að fjárfestingar einkaaðila í atvinnurekstri höfðu dregist mikið saman á fyrri helmingi ársins 2020. Þannig hefur hlutfall atvinnuvegafjárfestinga af landsframleiðslu lækkað hratt undanfarið og er nú komið niður fyrir meðaltal undanfarins aldarfjórðungs og útlit er fyrir að þessi samdráttur haldi áfram gangi spár eftir. Kannanir meðal atvinnurekenda hafa sýnt að fjárfestingar standi nánast í stað á næsta ári. Við þær aðstæður er þess vegna sérstaklega mikilvægt að hvetja fyrirtæki til framþróunar og arðbærra fjárfestinga í takt við samfélagsbreytingar á meðan heimsfaraldurinn gengur yfir og til að mæta breytingum sem óhjákvæmilega fylgja í kjölfar hans. Þess vegna verðum við að bregðast við, þar sem samfélagið þarf á virkri atvinnuþróun, fjölgun starfa og auknum gjaldeyristekjum að halda.

Aðstæður kalla á það að stjórnvöld fari í aðgerðir sem hvetja til fjárfestinga til að styrkja atvinnulífið í bráð og lengd. Það hefur verið farið í aðgerðir og verulega bætt í stuðning við nýsköpun sem er mjög mikilvægt. Það hefur verið farið í ýmsar aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid og til að halda fyrirtækjum gangandi. Ég lít á þessa aðgerð þannig að hún sé á milli nýsköpunar og þess að halda fyrirtækjum lifandi, það þarf líka að sækja fram.

Ef við komum aðeins að því hvernig þetta hefur verið síðasta áratuginn hefur hagvöxtur verið borinn uppi af nýjum störfum og atvinnuþróun á breiðum grunni í iðnaði, sjávarútvegi, afleiddum tæknigeira, fiskeldi, kvikmyndagerð og síðast en ekki síst í ferðaþjónustu. En fyrir u.þ.b. áratug voru flestir sem borið hafa uppi þessa þróun í einhverjum öðrum störfum. Það segir okkur að um allt land er fólk sem hefur gripið tækifærið síðasta áratuginn og er örugglega tilbúið að halda því áfram. Tillögunni er ætlað að greiða fyrir því að þetta fólk og fyrirtækin hafi aðgang að fjármagni til að skapa samfélaginu tekjur og mæta þeim kostnaði einstaklinga og samfélagsins alls af heimsfaraldrinum. Tillögunni er ætlað að bregðast við vísbendingum um að niðursveiflan í hagkerfinu magnist vegna þess að fyrirtækin hafa ekki aðgang að lánsfjármagni fyrir góð og arðbær verkefni og með aðgerð af þessu tagi gætu stjórnvöld sent skýr skilaboð um að framtíðin á Íslandi sé björt og að óhætt sé að stíga skrefið.

Hvatinn sem felst í ríkisábyrgðum ætti að geta nýst fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum þótt verkefnin sem ráðist yrði í yrðu flest lítil eða meðalstór. Þetta eru verkefni sem lánveitendur teldu vænlegan fjárfestingarkost í hefðbundnu árferði en gjalda nú fyrir óvissuna í samfélaginu. Íslenskt samfélag hefur ekki efni á því að bíða af sér faraldurinn heldur þarf framþróun og nýting tækifæra að halda áfram. Þá er mikilvægt að aðgerðinni er ekki ætlað að raska samkeppni heldur styðja við þróun og uppbyggingu í sem flestum greinum sem geta skapað verðmæti og gjaldeyristekjur. Það geta allar greinar komið til greina þarna, hvort sem það er iðnaður, tölvuleikjagerð, landbúnaður eða ferðaþjónusta, kvikmyndagerð, sjávarútvegur o.s.frv.

En aðeins að umfangi aðgerðarinnar. Það er mikilvægt að hvatningin nái til sem flestra en lánin geti orðið nógu há til að hafa raunveruleg áhrif. Því þarf að ákveða hámarksfjárhæð hvers láns og fjölda lána til sama aðila. Í ljósi þess gæti talist eðlilegt að fjárhæð ábyrgðar gæti hæst orðið 200 millj. kr. og hver lögaðili gæti aðeins hlotið viðspyrnulán með ríkisábyrgð vegna eins verkefnis en útfærslan verður að stuðla að því að þau lán dreifist til sem fjölbreyttastra verkefna í samfélaginu.

Ríkisábyrgð er að jafnaði ekki veitt á fulla lánsupphæð en samkvæmt viðmiðum OECD gæti verið ráðlegt að veita ábyrgð fyrir allt að 70% lánsfjárhæðar. Og eins og áður sagði: Til þess að aðgerðin hefði marktæk áhrif þyrfti að leggja að lágmarki 10–15 milljarða í verkefnið. Þá er því velt upp að átta ár gæti verið hæfilegur gildistími ábyrgðar.

Við mál eins og þetta er ekki aðgangur að öllum þeim tækjum og tólum sem maður vildi hafa til að meta áhrif á ríkissjóð. En áhrifin ráðast af ýmsum þáttum, svo sem eftirspurn eftir lánum og framgangi þeirra atvinnuþróunarverkefna sem lánin væru veitt til. En búast má við því að áhrifin á ríkissjóð yrðu jákvæð, bæði í formi sjóðstreymis og endanlegrar afkomu. Í rauninni má segja að yfirgnæfandi líkur séu á því að uppsöfnuð áhrif aðgerðarinnar á afkomu hins opinbera yrðu jákvæð þegar fram í sækti.

Í útfærslunni þarf að huga að ríkisstyrkjum og heimildum til ríkisstyrkja og opinberra úrræða vegna heimsfaraldurs og gæta að reglum um ríkisaðstoð og samspili úrræðisins við aðrar opinberar stuðningsaðgerðir í þeim tilvikum sem þær hafa þegar komið í hlut lántaka. En það eru alveg skýrar heimildir til þess, og í ljósi þeirrar stöðu sem hagkerfi heimsins standa frammi fyrir hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heimilað ríkjum sambandsins að veita ríkisaðstoð til fyrirtækja í vanda í mun meira mæli en í venjulegu árferði. Flutningsmenn hafa fundið dæmi um svipaða útfærslu, t.d. í Belgíu.

Varðandi framkvæmdina er lagt upp með að aðgerðin beinist að lögaðilum sem sækja um lán vegna atvinnuþróunarverkefna og fjármálastofnunum sem veita lán til atvinnuþróunar. Þá er mjög mikilvægt að í útfærslunni verði skýrt afmarkað hvað atvinnuþróunarverkefni er, að það sé verkefni til þróunar á vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð og síðan þyrfti að móta skilyrði fyrir því að atvinnuþróunarverkefni falli undir aðgerðirnar þannig að lán sem veitt yrði til verkefnisins gæti notið ríkisábyrgðar; hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla. Eins þarf að skilgreina leiðir fyrir lögaðila til að sýna fram á að verkefni uppfylli skilyrðin, finna einfaldar leiðir til þess, og hvort eða hvernig lagt yrði faglegt mat á verkefnin áður en veitt er vilyrði fyrir ríkisábyrgð og eins hvaða upplýsingum stjórnvöld þyrftu á að halda á meðan ríkisábyrgð væri í gildi og hvernig þær upplýsingar yrðu veittar.

Því hefur verið velt upp ef farið yrði út í faglegt mat hvort Rannís væri rétti aðilinn til þess. Flutningsmenn telja eðlilegt að byggja skilyrði faglegs mats á fimm atriðum sem eru grundvöllur þess að markmið tillögunnar náist. Fyrsta skilyrðið yrði náttúrlega að verkefnið leiddi af sér vöru eða þjónustu sem væri gjaldeyrisskapandi og að verkefnið væri atvinnuskapandi á Íslandi allan lánstímann, að verkefnið fæli í sér nýnæmi, annaðhvort svæðisbundið eða á landsvísu, en krafan um nýnæmi væri allt annars eðlis en í nýsköpunarverkefnum, því sem fellur undir nýsköpun. Hún væri t.d. ákveðin krafa um nýnæmi í tiltekinni grein eða svæðisbundið. Svo þyrfti að útskýra hvernig verkefni gæti staðið af sér mismunandi efnahagsaðstæður, hefðbundnar efnahagssveiflur, og þá þyrfti viðskiptaáætlun að vera mjög vel skilgreind með tilliti til framangreindra atriða. Þá er mikilvægt að sem flestir geti veitt lán inn í þetta sem stunda lánveitingar til atvinnurekstrar, viðurkenndir viðskiptabankar, mikilvægt að lífeyrissjóðirnir gætu komið inn í þetta, hugsanlega aðrir sjóðir sem hafa það að markmiði að styrkja atvinnuþróun eða nýsköpun sem er lengra komin. Síðan þyrfti að móta skýra umgjörð um umsýslu og eftirfylgni. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir stöðuna í samfélaginu er mikilvægt að framþróun atvinnulífsins stöðvist ekki og hér hef ég skýrt tillöguna og legg til að málinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar að lokinni þessari umræðu.