153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

lækkuð stofnframlög til húsnæðisuppbyggingar.

[15:08]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að tala um vanþekkingu mína á þessum málaflokki. 10.000 manns talar hann um og hann talar um lóðaskort. Þetta er auðvitað bara fyrirsláttur. Ef við myndum ræða við verkalýðshreyfinguna, sem ég hef gert, og sveitarfélögin þá lá alveg fyrir að þau eru að búast við þessu fjármagni inn í stofnframlagakerfið. Það er búið að vera samráð í gangi á milli ráðuneytisins og sveitarfélaganna nákvæmlega út af þessu og hér kemur hæstv. ráðherra upp með þennan fyrirslátt. Það var spilað upp með 4.000 íbúðir í vor, var spilað upp með í haust. Þriðjungur af því eru félagslegar íbúðir. Óháð því hvað er að gerast á venjulegum markaði fyrir íbúðir þá er þessum félagslegu íbúðum ekki að fjölga, þetta loforð er ekki að koma inn. Þetta eru bara fleiri svikin loforð, líkt og eftir lífskjarasamningana þar sem úrbótum á leigukerfinu var lofað en ekkert kemur inn. Ég vil því spyrja hæstv. formann Framsóknarflokksins og innviðaráðherra: Fyrst það er ekki geta í þessari ríkisstjórn til að koma fjármagninu út í stofnframlög má ekki setja þetta í vaxtabótakerfið og styðja við fólk sem á virkilega um sárt að binda út af húsnæðisverðshækkunum þessarar hæstv. ríkisstjórnar?