153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

alþjóðlegar fjárfestingar í nýsköpun.

[15:13]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns um þá gagnrýni sem hefur komið fram um þetta frumvarp. Ég er þeirrar skoðunar að nú sé rétt að staldra við út af öllum þeim umsögnum sem hafa komið varðandi stöðuna á erlendri fjárfestingu hér á landi og fara yfir þessa gagnrýni áður en lengra er haldið. Við verðum að taka okkur tíma til að skoða bæði forsendur og tilgang frumvarpsins ofan í kjölinn. Ég tel persónulega að það hasti ekkert að koma málinu í gegn fyrr en almenn sátt hefur náðst. Flestir skilja tilganginn og geta stutt hann, en það verður að eyða þeirri óvissu sem er til staðar og hv. þingmaður nefnir, t.d. hef ég séð í ábendingum að það þurfi að skýra til hvaða fyrirtækja og greina rýnin skuli ná og einnig þurfi að fara fram greining á efnahagslegum áhrifum frumvarpsins áður en lengra er haldið.

Áformin yfir höfuð eru í sjálfu sér skiljanleg. Margar hættur ber að varast en kúnstin felst í því að smíða löggjöf sem hæfir tilefninu og er hvorki of víðtæk né of ströng. Fremur en að fæla alþjóðlega fjárfesta frá landinu ættum við einmitt að hvetja þá til að koma hingað til lands með einföldu, skiljanlegu og samkeppnishæfu regluverki, þó að jafnframt sé hugað að öryggishagsmunum þjóðarinnar. Hindrunin í vegi alþjóðlegrar fjárfestingar í mikilvægum innviðum og atvinnugreinum er nú þegar orðin talsvert mikil hér á landi. Því tel ég mjög mikilvægt að rýna það og fara vel yfir hvernig við getum skoðað fjárfestingarumhverfið í heild sinni, sérstaklega fyrir nýsköpunarfyrirtæki svo að þau velji það að starfa hér, svo að þau velji að stækka fyrirtækin hér og komi hingað með þessa fjárfestingu af því að við vitum hversu mikilvæg hún er fyrir íslenskt efnahagslíf.