153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

alþjóðlegar fjárfestingar í nýsköpun.

[15:16]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er verkefni okkar stjórnmálamanna, jafnt í ríkisstjórn sem annars staðar, að hlusta á þær gagnrýnisraddir sem koma upp þegar frumvörp eru lögð fram. Þegar svona stórt mál er sett í samráð og athugasemdir af þessu tagi koma frá fyrirtækjum sem hafa verið að stíga stór skref í uppbyggingu í íslensku efnahagslífi verðum við auðvitað að leggja við hlustir. Það er ekki annað í boði. Við þurfum líka að nálgast þetta út frá því hverjir eru kostir alþjóðlegrar fjárfestingar fyrir land eins og Ísland af því að þeir eru algerlega ótvíræðir. Slíkri fjárfestingu fylgir bæði ný þekking og kunnátta en um leið mun fjölbreytni í atvinnulífinu aukast og nýir markaðir fyrir útflutning opnast. Stoðirnar eru að verða fjölbreyttari í íslensku atvinnulífi. Á sama tíma þurfum við að smíða löggjöf sem hæfir tilefninu og það er ýmislegt sem þarf að varast. Við verðum á sama tíma að draga úr hömlum og hindrunum og fara milliveg í þessu máli eins og öðrum.