153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

úrræði fyrir heimilislaust fólk.

[15:31]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Herra forseti. Fjölmiðlar fjölluðu um úrræðaleysi í málefnum heimilislauss fólks nú á dögunum. Umræðan hefur m.a. snúist um að heimilislaust fólk með fíknivanda leiti sér skjóls í bílastæðahúsi. Sérfræðingar í skaðaminnkun hafa lengi bent á þetta úrræðaleysi. Neyðarskýli er lokað á milli tíu á morgnana og fimm á kvöldin og þá hefur heimilislaust fólk ekki í önnur hús að venda en bílastæðahús. Til að byrja með er vert að benda á hversu lýsandi það er fyrir þau gildi sem samfélag okkar hefur í hávegum að heimilisleysi sé látið viðgangast en enginn skortur sé á byggingum fyrir bíla svo að heimilislaust fólk sér sig tilneytt að leita skjóls í bílastæðahúsum. Engar áætlanir eru um fjölgun íbúðarhúsnæðis ef marka má fjárlög svo að ekki verður mikið byggt til handa heimilislausu fólki á næstunni. Ekki eru heldur líkur á öðru en að þessu fólki muni koma til með að fjölga ef útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra verður gert að lögum.

Ljóst er að ábyrgð ríkisstjórnarinnar á stöðu heimilislauss fólks er mikil. Hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að bregðast við þessum vanda? Hvaða vinna innan heilbrigðisráðuneytisins á sér stað með tilliti til fjölgunar neyslurýma og hvenær má búast við að sú vinna skili áþreifanlegum afrakstri?