Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það vera gild spurning og gild skoðun hjá Birni þegar hann dregur fram að við erum með hættulegustu aðstæður sem hafa skapast á síðari tímum. Þjóðaröryggisstefna sem er í gildi núna hefur ótvírætt verið góð en við þurfum að taka meiri skref og ég fer yfir það á eftir. En svarið við minni spurningu — já eða nei? Er kjarnavopnastefna NATO stefna Íslands? Er það ekki alveg ljóst að við erum skuldbundin því sem stendur í NATO og við höfum skrifað undir þær skuldbindingar sem þar eru? Þetta er einföld spurning, hvort það sé ekki alveg á hreinu og þetta skiptir mjög miklu máli. Þetta varðar þjóðaröryggi.

Síðan er annað og ég rak augun í það varðandi 12. lið. Það er búið að taka út orðið varnarmál en mig langar að fá skýringar á því af hverju 12. liður er þannig breyttur að í stað varnarmála eru þjóðaröryggismál sett inn. Varnarmálin eru vissulega það sem í texta snertir tvíhliða samstarf okkar Íslendinga. En ég vil gjarnan fá útskýringu ráðherra á því af hverju orðið varnarmál helst ekki inni. Það er hægt að hafa þjóðaröryggis- og varnarmál, að við undirstrikum, (Forseti hringir.) ekki síst á þessum tímum, að varnarmálin eru gríðarlega mikilvægur partur af þjóðaröryggisstefnunni. Ég mundi gjarnan vilja fá útskýringu (Forseti hringir.) á þessari orðalagsbreytingu sem er nokkuð mikilvæg.