Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að það komi hér alveg skýrt fram að stefna íslenskra stjórnvalda er vel kunn og hún hefur verið sú að leyfa ekki staðsetningu kjarnavopna hér á Íslandi. Hins vegar er það svo að kjarnavopn eru þáttur í fælingarstefnu Atlantshafsbandalagsins og öll aðildarríkin standa að þeirri stefnu. Í henni felst ekki velþóknun á slíkum vopnum og þar held ég að ég tali algjörlega skýrt enda er hið endanlega markmið Atlantshafsbandalagsins, af því að hv. þingmaður nefnir það sérstaklega hér, að fækka kjarnavopnum og skapa þau skilyrði að þeim verði hægt að eyða. Ég held að svarið geti ekki orðið öllu skýrara en það og svara ég bara út frá þeim samþykktum sem hafa verið gerðar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um þá breytingu sem hér er gerð vil ég segja að þjóðaröryggisráð var sett á laggirnar eftir að stefnan var samþykkt síðast. Í staðinn fyrir að það standi að sett verði á laggirnar þjóðaröryggisráð stendur að þjóðaröryggisráð starfi á grundvelli sérstakra laga og síðan þótti þetta hreinlega til einföldunar. Það fór ekki fram, satt að segja, mikil pólitísk umræða um þessa breytingu enda þótti okkur þjóðaröryggismál (Forseti hringir.) endurspegla hlutverk ráðsins mjög skýrt.