Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti,. Ráðherra hefur lagt fram sínar tillögur að breytingum á þjóðaröryggisstefnunni. Ef hv. utanríkismálanefnd, sem raunar ráðherra átti óformlegt samráð við í aðdragandanum, vill skoða þessi mál frekar þá tel ég að nefndin geri það. Hins vegar minni ég bara á að þegar þessi stefna var á sínum tíma lögð fram á Alþingi og þess vegna ætti það, eins og ég segi hér, ekki að koma neinum á óvart, fylgdi beinlínis í greinargerð, texti um nákvæmlega þetta þar sem sagði:

„Nefndin minnir á að það hefur löngum verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að á Íslandi skyldu ekki vera kjarnorkuvopn. Má nefna því til áréttingar þingsályktun um stefnu Íslands í afvopnunarmálum frá árinu 1985.“

Til frekari áréttingar á þeirri stefnu er í þessari tillögu, tillögunni sem var lögð fram 2016 og samþykkt, lagt til að Alþingi álykti að Ísland og íslensk landhelgi, sem var í raun og veru nýmælið, sé friðlýst fyrir kjarnavopnum í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði. Friðlýsingin nái til íslensks lands og landhelgi að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og vitnað var sérstaklega í hafréttarsamninginn. Ég hvet bara hv. utanríkismálanefnd til að fara nánar yfir þetta en ég ítreka það síðan að við erum auðvitað aðilar að Atlantshafsbandalaginu (Forseti hringir.) og í grunnstefnu þess er fjallað um þessi atriði, bæði frá 2010 og 2022 og ég get kannski komið nánar að því síðar í þessari umræðu.