Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja einmitt um þjóðaröryggi og öryggis- og varnarmál, vera ófeiminn við það og detta ekki í einhverja taugaveiklun þegar kemur að Evrópusambandinu. Ég hef sagt það og fleiri væntanlega að það voru mistök af hálfu Bandaríkjamanna að virða viðvörunarorð bæði okkar og fleiri að vettugi þegar herstöðinni var lokað árið 2006 og það hafa verið skrifaðar margar greinar um það. Ég minntist hér fyrr í dag á Björn Bjarnason sem dregur fram m.a. grein sem bandarískir öryggisfræðingar skrifa nýlega í tímaritinu Foreign Affairs þar sem þeir draga það einmitt fram að þetta hafi verið mistök. Við verðum, ekki síst í ljósi þess ástands sem nú er í heiminum vegna grófrar og ömurlegrar framkomu Rússa í garð Úkraínu, að endurmeta þetta. Það er það sem ég spyr um: Hvar er matið á þessu? Er það einstaks þingmanns að meta það? Ég vil einfaldlega fá að meta það hver er fælingarmáttur þess að hafa viðvarandi varnarlið hér á Íslandi. Sérfræðingar eins og Baldur Þórhallsson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur bent m.a. á að í því geti falist ákveðin fæling fyrir þjóð eins og Rússa að vita af því að það er ákveðið varnarlið sem getur farið af stað. Hvernig setjum við það saman, er það þannig að NATO-þjóðirnar rótera sín á milli? Það er bara framkvæmdaatriði. Ég tel að við eigum að meta það skýrt og skilmerkilega og ég fæ það mat hvergi fram hvort betra sé fyrir okkur að hafa viðvarandi veru varnarliðs hér eða hafa þetta svona happa og glappa, stundum loftrýmisgæslu og stundum ekki. Þetta er umræða sem ég vil gjarnan fá af stað. Ég segi: Vegna viðkvæmrar samsetningar ríkisstjórnarinnar og ólíkrar afstöðu ríkisstjórnarflokkanna gagnvart NATO, (Forseti hringir.) gagnvart varnarliðinu, þá förum við ekki á dýptina í þessu máli. Það er það sem ég hefði gjarnan viljað og ég mun taka málið upp í hv. utanríkismálanefnd.