Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:53]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann byrjaði á að vitna til ræðu minnar og sagði að ég hefði litið á þjóðaröryggisstefnuna eða öryggishagsmuni í ansi þröngum skilningi og hann vildi gera það í víðum skilningi. Ég vil bara benda á skilgreininguna, hvað átt er við með þjóðaröryggi. Ég fór yfir það í ræðu minni að það eru ógnanir sem geta valdið ákveðnum áhrifum á fullveldi, sjálfstæði o.s.frv. Innri og ytri ógnanir af mannavöldum og náttúruhamförum. Ég fór yfir ógnanir af völdum náttúruhamfara og af mannavöldum. Annars vegar getur það verið lögreglumál og svo er það varnarsamstarfið, árásir.

Hv. þingmaður talar um að horfa á þetta í víðu samhengi en það segir að þjóðaröryggisstefnan byggist á víðtækri skilgreiningu öryggishugtaksins þar sem litið sé til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta. Stefnan felst m.a. í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki og tekur mið af samþættingu. Ég náði bara ekki hvað hv. þingmaður átti við með þessari víðu skilgreiningu, sem væri víðari en þetta. Mér fannst hann vera að tala um eitthvað sem væri enn þá víðari skilgreining á öryggishugtakinu. Ég get bara bent á að í stríðinu í Úkraínu er það varnarsamstarfið sem skiptir máli. Öll Austur-Evrópa horfir til Bandaríkjanna. ESB mun ekki bjarga neinum. Þýskaland, mesta efnahagsveldi Evrópusambandsins, er með færri skriðdreka en Sviss, er með minni flota en Holland — þeir ætla reyndar að fara að setja 100 milljarða evra í að byggja hernaðarmaskínu.

Vissulega talar Frakklandsforseti um evrópskt fullveldi og það allt, en það er alveg kristaltært að við byggjum varnarhagsmuni okkar á Bandaríkjunum og NATO, engum öðrum. Bandaríkin eru í NATO. Austur-Evrópuríkin vilja komast undir vernd Bandaríkjanna. Það er það sem þetta snýst allt um. NATO er drifið áfram af Bandaríkjunum, mesta herveldi heims. Eistar eða Danir myndu ekki verja Ísland, það er bara ekki þannig. Og að segja að ég líti á þetta í þröngum skilningi: Hvað sýnir stríðið í Úkraínu okkur annað en það að það er einmitt varnarsamstarfið sem skiptir máli?