Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir afskaplega leitt ef hv. þingmanni hefur fundist ræðan beinast gegn sér, það var alls ekki þannig hugsað. En í ræðu sinni útskýrði hv. þingmaður hins vegar kannski svolítið vel hvað ég var að hugsa. Við höfum í gegnum tíðina, í gegnum okkar samstarf innan Atlantshafsbandalagsins og með þessum tvíhliða samningi við Bandaríkin, verið að reyna að takast á við þær ógnir sem að okkur steðja, þessar best þekktu og mest ræddu ógnir sem að okkur steðja sem geta verið vegna styrjalda. En til framtíðar eru það fjölmargir aðrir þættir sem geta haft áhrif á líf okkar og ógnað þjóðaröryggi. Ógn getur steðjað að lýðræðinu. Ógn getur stafað af skorti á menntun. Okkur getur staðið ógn af mikilli fátækt í landinu. Það sem ég er einfaldlega að taka undir er að í endurbættri þjóðaröryggisstefnu er verið að gefa þessum hlutum meiri gaum, svo að ég tali nú ekki um loftslagsmálin.

Ég er alveg sama sinnis með það og hv. þingmaður að innganga í Evrópusambandið mun ekki bjarga öllu. Ég er hins vegar að benda á að ásamt því að byggja á sömu grunngildum og NATO, frelsi, lýðræði og mannréttindum, þá eru Evrópusambandsríkin saman í fararbroddi þegar kemur að baráttu gegn loftslagsógninni, verndun lýðréttinda, eins og persónuverndar, réttinda minnihlutahópa, og af því að það er kjarninn í því sem við höldum á lofti í alþjóðasamstarfi þá fyndist mér mjög skynsamlegt að við myndum eiga betra samstarf og samlegð. Ég vil sjálfur að við verðum fullir aðilar þar inni og tel, eins og Eystrasaltsríkin, Finnar, Svíar og Danir, að hvort tveggja sé betra en annar kosturinn.