Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:21]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir ótrúlega margt sem þar kom fram. Mig langar að vitna í það sem hér kemur fram, þ.e. að við eigum að fylgja stefnu um þjóðaröryggi sem tryggi sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegt stjórnarfar og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, vernd stjórnkerfis o.fl. Í næstu grein er svo fjallað um þessa hluti og þar er talað um jafnrétti, friðarstefnu, afvopnun. Mér hefur þótt dálítið sérstakt hvernig orðræðan fer oft út í það að á Íslandi sé styrjöld yfirvofandi og að við þurfum að efla allar varnir með tilliti til hernaðar sem mér finnst ekki vera sérstaklega ábyrg orðræða og ekki senda sérstaklega góð skilaboð út til almennings. Ég held að við getum verið þakklát fyrir að eiga okkar talsmann, hæstv. forsætisráðherra, á vettvangi NATO, þar sem við höldum þessum gildum á lofti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, í kjölfar ræðu hans, hvort það sé ekki hans mat, ef ég skil hann rétt, að við ættum að vera að tala um, í staðinn fyrir að vera alltaf að þeyta einhverja stríðslúðra, það sem við erum megnug að gera, sem er fjármagn í formi mannúðaraðstoðar, reynsla og þekking af orkumálum, að stuðla að matvælaöryggi. Það er svo margt sem við höfum fram að færa en umræða um her á Íslandi, um að hér standi fyrir dyrum ógn af stríðsrekstri, á eiginlega ekki við.