Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgott andsvar. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að það er óþarfi að vera að ala á einhverjum stríðsótta. Við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á að við Íslendingar erum vel settir. Við höfum hér varnarsamstarf við NATO og Bandaríkin og varnarsamninginn við Bandaríkin sem eiga að skapa okkur það öryggi sem við þurfum. Það eru breyttir tímar í Evrópu þannig að það þarf vissulega að ræða þessa hluti og ég held að við getum kjarnað það í samstarfinu sem ég nefndi.

Varðandi það að við tölum fyrir friði þá styð ég það heils hugar. Ég hef oftar en einu sinni úr þessum ræðustól talað fyrir því að við Íslendingar eigum ónýtt tækifæri í friðarumleitunum á erlendum vettvangi. Það helgast m.a. af því að við erum herlaus þjóð án vopnaframleiðslu og í öllum friðarumleitunum skiptir traust gríðarlega miklu máli. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur einmitt sagt opinberlega að Ísland njóti mikils trausts á alþjóðavettvangi. Þess vegna tel ég að þarna séu ónýtt tækifæri sem við gætum nýtt til að vera friðflytjendur, og það væri mikill sómi að því. Hv. þingmaður nefndi að forsætisráðherra hefði talað fyrir slíku innan NATO og ég styð það heils hugar. Það er afar mikilvægt að við leggjum þetta til málanna. Það er þannig í þessum friðarmálum að ríki sem hafa t.d. verið að reyna að gera sig gildandi í friðarumleitunum, eins og t.d. Noregur, hafa því miður ákveðna svarta bletti þegar kemur að þessum málum, t.d. varðandi vopnaframleiðslu. Það varð t.d. (Forseti hringir.) til þess að Noregur náði engum árangri á Srí Lanka á sínum á sínum tíma vegna þess að þeir (Forseti hringir.) voru vopnaframleiðendur og það fundust vopn hjá tamíltígrum framleidd í Noregi. (Forseti hringir.) Á sama tíma voru þeir að reyna að tala fyrir friði þannig að við sjáum að hér eigum við heilmikil tækifæri.

(Forseti (LínS): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)