Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:21]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, fyrir að mæla hér fyrir uppfærslu á þjóðaröryggisstefnunni. Það er svo sannarlega kominn tími til að uppfæra hana og draga lærdóm af því sem við höfum verið að gera undanfarin ár sökum þess að það eru miklar breytingar í heiminum í öryggismálum en líka í loftslagsmálum. Og svo má ekki gleyma því að tæknin breytir líka heiminum ansi hratt þessa dagana. Það er ánægjulegt að sjá að í þessari tillögu er settur ákveðinn fókus á friðsamlegar lausnir og afvopnun og ber að fagna því að því sé haldið hér áfram. En það er mikilvægt líka að þessi umræða sé ekki bara um varnarmál og stríð þó svo að við séum að upplifa tíma núna sem fá okkur kannski til þess að fjalla meira um það en við höfum gert undanfarinn áratug eða svo. Við þurfum nefnilega líka að horfa til þeirra breytinga sem eru að verða í loftslagsmálunum, hvernig við sem lítið eyríki úti í miðju Atlantshafi verðum fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Á sama tíma megum við ekki gleyma því að við búum á eyju sem er enn að mótast og bara á síðustu tveimur árum höfum við fengið að upplifa það að t.d. eldgos geta átt sér stað hér í bakgarði höfuðborgarsvæðisins. Jarðvísindamenn eru líka duglegir við að minna okkur á það að flest af okkar stærstu eldfjöllum eru komin á tíma. Þetta eru allt saman hlutir sem við þurfum að hafa í huga þegar við erum að hugsa um þjóðaröryggi vegna þess að þjóðaröryggi snýst ekki bara um varnarmál heldur um öryggi þjóðarinnar og hvers konar vá.

Það er einnig ánægjulegt að sjá í þessari tillögu að talað er um friðsamlega alþjóðasamvinnu þar sem verið er að takast á við hluti eins og ójöfnuð, jafnrétti, hungur, fátækt og fleira. Þar getur Ísland einmitt leikið mun stærra hlutverk, ekki kannski endilega með peningaútlátum, því að þó svo að við höfum verið duglegri við að auka peningaútlát á síðari tímum til þróunarstarfs og mannúðaraðstoðar þá getum við gert svo miklu meira með því að miðla af þekkingu okkar og reynslu. Hér í dag hefur einmitt verið nefnt eitt dæmi um slíkt. Við Íslendingar stöndum mjög framarlega þegar kemur að hlutum eins og leit og björgun og við gætum, eins og bent var á fyrr í dag eða fyrr í kvöld, þetta er orðinn kvöldfundur, séð um leit og björgun á norðurslóðum, ekki endilega að sjá um framkvæmd við alla leit og björgun heldur að stýra aðgerðum og samhæfa þær. Þar höfum við mikla reynslu.

Það er einnig ánægjulegt að sjá að það tókst að setja smá af Evrópu í þessa stefnu, þó ekki Evrópusambandið heldur bara evrópska samvinnu. Það er mikilvægt að átta sig á því að Ísland hefur um langt skeið tekið þátt í almannavarnasamstarfi Evrópu. Við höfum í rauninni ekki nýtt okkur það nógu vel vegna þess að þar gefst okkur kostur á að þjálfa okkar fólk í því að takast á við stórar aðgerðir, jafnvel taka þátt í aðgerðum í þessu samvinnuverkefni sem Evrópusambandið er að vinna. Þannig öðlast fólk reynslu og þegar það fólk kemur aftur hingað til lands eftir einhverjar vikur, eftir að hafa tekið t.d. tveggja vikna námskeið eða verið í tvo mánuði í Pakistan við að aðstoða við vatnsdreifingu eða eitthvað slíkt, kemur það til baka með reynslu sem nýtist síðan í okkar samfélagi. Þar höfum við rætt í þróunarsamvinnunefnd um möguleika þess að byggja upp ákveðinn viðbragðshóp hér heima sem hægt sé að bjóða fram í gegnum þetta evrópska samstarf og er síðan hægt að nýta hér á landi þegar stórir atburðir gerast. Það er eitthvað sem við ættum að skoða vel.

Hér er talað um skilvirkt og samhæft viðbragð við vá. Þarna er mikilvægt að vera ekki bara með orðin tóm heldur að það sé sett fjármagn í þetta. Það hefur því miður verið þannig um allt of langan tíma að almannavarnir hafa verið undirfjármagnaðar. Þar þurfum við að vinna mikla vinnu í viðbragðsáætlunum og fleira. Hér skömmu fyrir Covid unnu um sex manns hjá almannavörnum. Restin voru allt sjálfboðaliðar. Það þarf fjármagn og eins og haft var eftir yfirmanni almannavarna, Víði Reynissyni, þá þyrftum við um 30 stöðugildi til nokkurra ára til að klára viðbragðsáætlanir á landinu. Þetta eigum við að skoða og gera.

Það er líka ánægjulegt að sjá að þessi þingsályktunartillaga fjallar um röskun á lífsskilyrðum og búsetu vegna loftslagsbreytinga. Þarna er ekki nóg að hugsa bara um hvernig þetta hefur áhrif á okkur heldur þurfum við að taka virkan þátt og leggja fjármagn í hinn nýstofnaða sjóð sem var búinn til í Egyptalandi fyrir tveim vikum síðan sem gengur út á það að ríku þjóðirnar veiti fjármagn til þess að bregðast við skemmdum og tapi eftir veðurhamfarir og fara í þær aðgerðir sem þarf í fátækari löndum. Þessi sjóður er kallaður á ensku, með leyfi forseta, Loss and Damage-sjóður. Hann var búinn til fyrir tveim vikum en það er ekki fyrr en eftir eitt ár sem við ákveðum hvernig hann á að virka og svo förum við ekki að leggja pening í hann fyrr en eftir eitt ár í viðbót eftir það.

Það hefur mikið verið talað um netöryggi og þar er mikilvægt að horfa ekki bara til þess að hingað liggja strengir sem hægt er að klippa í sundur heldur líka að það er hægt að ráðast á slíkan búnað einfaldlega með netárás og hafa þannig áhrif á hann án þess að nokkurn tíma þurfi að sigla einum einasta bát. Það er líka búið að tala aðeins um gervihnetti sem varaleið. Því miður er það þannig í dag að það eru ekki gervihnettir fyrir ofan Ísland sem hægt væri að nýta almennilega sem varaleið. Evrópusambandið kynnti fyrir okkur í EES-nefndinni fyrir rúmum mánuði síðan eða tveimur nýtt prógramm sem þeir eru með, sem á ensku kallast, með leyfi forseta, EU Secure Connectivity Program. Það á að fara að setja upp gervihnetti til að tryggja fjarskipti milli ríkja innan Evrópu og það er mikilvægt að Ísland og EES verði þátttakendur í þessu.

Að lokum langaði mig bara að segja enn og aftur: Það er ekki nóg að vera með góða stefnu og vel skipað þjóðaröryggisráð heldur þarf að fylgja þessu eftir með aðgerðaáætlun um hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að gera, áætlun sem er tímasett og fullfjármögnuð.