Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og það að vilja vita meira um hvað okkur í Pírötum, eða mér, finnst um þessi mál. Ég held að það sé alveg á hreinu að við þurfum að vinna mikið í því að bæta innviði okkar, hvort sem það er til að tryggja fjarskipti á vegum úti eða í afskekktum dölum, eins og hv. þm. Lilja Rannveig Sigurðardóttir nefndi hér áðan, eða til að tryggja raforkuöryggi, eins og hv. þingmaður nefndi. Að sjálfsögðu þarf að leggja vinnu í þessa hluti. Það er sorglegt að við séum með flutningskerfi sem er orðið 50 ára gamalt og er þannig úr garði gert að það stenst hreinlega ekki veður. Það verður að geta dreift orkunni hvaðan sem hún kemur þegar álagið minnkar eða eykst á einhverjum stöðum. Við þurfum svo sannarlega að fjárfesta í þessu og því miður held ég að við höfum misst af tækifæri fyrir nokkrum árum til að sækja ódýr græn lán til að byggja upp þessa innviði, lán sem hefði verið hægt að fá á 0% vöxtum.

Varðandi það hvernig við eigum að ná fram okkar hlutum þá held ég að það sé einmitt mjög góð setning í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. með því að taka virkan þátt í norrænni, evrópskri og alþjóðlegri samvinnu. Það er nákvæmlega þannig sem við þurfum að vinna hlutina. Við skulum ekki halda að við getum gert eitthvað alein og óstudd. Við þurfum að vinna með öðrum, læra af öðrum, leggja það fram sem við getum, hvort sem það er á borgaralegum forsendum eða öðrum. Þannig vinnum við.