Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessi ágætu orð hæstv. forsætisráðherra nákvæmlega á þessum nótum. Við í þinginu getum ekki firrt okkur ábyrgð. Við verðum að standa undir þeirri ábyrgð sem felst í því að vera hér að störfum og því hvert hlutverk okkar í utanríkismálanefnd er hverju sinni. Náum við að uppfylla þau skilyrði og kröfur sem eru gerðar til okkar lögum samkvæmt? Það er fínt að tekið sé vel í það.

Ég get auðvitað ekki komist hjá því að minnast á Evrópusambandið. Hæstv. ráðherra nefndi lýðræði sem svo stóran part í upphafi sinnar ræðu, hélt fína tölu um hvað lýðræði skiptir miklu máli og væri einhvern veginn þrætt inn í allt þegar kemur að þjóðaröryggismálum. Það er hluti af sýn okkar í Viðreisn, þ.e. að Evrópusambandið er svo miklu meira en bara efnahagssamband heldur ýtir undir mikilvæga þætti eins og lýðræði, frelsi og frið. Það er ástæða þess að við segjum að það eigi að vera hluti af þjóðaröryggisstefnu okkar að meta (Forseti hringir.) hvaða áhrif það myndi hafa á öryggi okkar með tilliti til lýðræðis, friðar og frelsis að taka og vera fullir þátttakendur í Evrópusambandinu, alveg eins og við erum ánægjulega fullir þátttakendur í NATO.