Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég las ágæta bók á dögunum þar sem það var orðað þannig að við sæjum alltaf fyrir okkur að þegar lýðræðið hyrfi þá væri það á þann veg að það væri skriðdreki fyrir utan gluggann hjá okkur. En það væri hins vegar flóknara þegar lýðræðið hyrfi jafnvel vegna aðgerða lýðræðislega kjörinna leiðtoga sem beittu öllum ráðum til að draga úr lýðræðinu með því að takmarka aðgengi að kosningum, skerða frelsi fjölmiðla, listamanna og annarra þeirra sem halda uppi gagnrýninni umræðu í samfélaginu okkar, sem við verðum öll að geta tekist á við. Ef okkur er í raun og veru annt um lýðræðið er okkur líka annt um tjáningarfrelsið, málfrelsið og sterka stöðu þessara aðila. Það er einmitt þetta sem við höfum því miður séð gerast, að kjörnir leiðtogar nýta jafnvel færin til að breyta stjórnskipan til að lengja sín eigin valdatímabil. Þetta sjáum við gerast hægt og hljótt og skyndilega áttar fólk sig á því að lýðræði er ekki lengur hið sama og það var. Eftir að hafa gegnt núverandi embætti og kynnst þessu nánar þá verður lýðræðið manni einhvern veginn kærara og maður verður enn þá meira vakandi fyrir því að ekkert er sjálfgefið í þeim efnum. Við erum fólk eins og allt annað fólk í heiminum og þessir hlutir geta gerst hér líka. Því er ég mjög ánægð með að við tölum um lýðræðisleg gildi og lýðræðislegt stjórnarfar í þessari þjóðaröryggisstefnu verði hún samþykkt svo. Ég held nefnilega að þetta sé algjört lykilatriði fyrir okkar samfélagsgerð.