131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:11]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bæði óvenjulegt og óviðkunnanlegt þegar talsmenn stjórnarandstöðunnar nota stóran hluta af ræðum sínum í að gefa í skyn að ekkert sé að marka ríkisreikninginn og það sé ekkert að marka uppgjör ríkisins, þetta stangist allt á og menn geti ekki áttað sig á þessu. Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun hefur gefið út kemur mjög skýrt fram að þetta er algerlega samanburðarhæft og ekkert við það að athuga.

Athugasemdin sem háttvirtur þingmaður gerði að umræðuefni snýr að lífeyrissjóðunum og færslunum þar. Það er 60 milljarða kr. greiðsla sem ríkið hefur látið af hendi. Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við að ávöxtunin skuli færð til lækkunar skuldbindingunum en ekki færð sem fjármunatekjur. Ég held að sú athugasemd sé alveg hárrétt en hún breytir nákvæmlega engu.